138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

ummæli í utandagskrárumræðu -- loftslagsráðstefna -- þjóðgarðurinn Snæfellsjökull -- lán OR.

[10:54]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að fylgja aðeins eftir ræðu hv. þm. Ólafar Nordal og fjalla um svör hv. þm. Lilju Mósesdóttur. Þingmaðurinn rakti það vel hvernig lánakjör Orkuveitu Reykjavíkur eru mun hagstæðari en lánakjör íslenska ríkisins í Icesave-samningunum og í framhaldi benti hún á ummæli sem fallið hafa hér um að Orkuveita Reykjavíkur væri við það að verða gjaldþrota og fengi engin lán.

Það er rétt að staðið hafa yfir samningaviðræður við Evrópubankann, Orkuveita Reykjavíkur hefur verið í samningaviðræðum við Evrópubankann um þetta lán sem tekið er til að stækka virkjun á Hellisheiði. Ég held að ég fari rétt með að hefðbundið hafa lánakjörin verið um 7 punktar ofan á Libor. Það hefur verið aukin áhætta hérna á Íslandi og þar af leiðandi hafa lánakjörin hækkað upp í 40 punkta þannig að nú um stundir er þetta rúmt prósent.

Skuldatryggingarálag íslenska ríkisins núna, sem þykir allt of hátt og lýsa allt of mikilli svartsýni, er í kringum 300 punktar. Ef íslenska ríkið mundi taka lán á einkamarkaði núna fengi það lánakjör sem væru nálægt 3,5%. Til samanburðar er Icesave-samningurinn 5,5%. Nýi meðlimurinn í stjórn Seðlabankans hefur rakið vel hvað Hollendingar og Bretar munu hagnast (Forseti hringir.) gríðarlega mikið, um marga milljarða á þessu. Ég tel rétt að benda á þetta í því samhengi að Icesave-samningarnir bera allt of háa vexti (Forseti hringir.) og við eigum ekki að samþykkja þessa vexti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)