138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

ummæli í utandagskrárumræðu -- loftslagsráðstefna -- þjóðgarðurinn Snæfellsjökull -- lán OR.

[10:57]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Ég held að sú vísa sem fjallar um vextina á Icesave verði aldrei of oft kveðin hér. Það verður að segjast eins og er að manni bregður nokkuð í brún við að opinbert fyrirtæki, Orkuveita Reykjavíkur, skuli koma heim með slíka vexti sem við höfum heyrt af núna. Auðvitað er það jákvætt og ég auðvitað er ánægð með það að slíkir vextir fáist til þeirrar framkvæmdar sem Orkuveitan ætlar í. Það er ekki það sem við fjöllum um hér heldur hitt að sú ríkisábyrgð sem lögð er á vegna Icesave-samkomuagasins og þær byrðar sem á þjóðina verða lagðar skila okkur einungis 5,55% glæsilegum vöxtum en ekki minna, sem við hefðum þó haldið þegar ríkisábyrgð er undir.

Þar til viðbótar, og það ergir mig mjög og marga fleiri, býst ég við, hagnast Bretar og Hollendingar mjög á þessum vaxtamunarviðskiptum sínum við okkur. Þetta dapurlega mál lagast aldrei neitt og mun ekki gera það með þessu áframhaldi, þ.e. að við skyldum hafa skrifað upp á að Bretar og Hollendingar fjármagni sig upp á ríflega 4% vexti og rukki okkur um 5,55% vexti. Við skulum hafa það í huga að hvert prósent þar er upp undir 7 milljarðar kr. Það hleypur á tugum milljarða þegar horft er á það í heild sinni. Að menn ætli að kyngja því þegjandi og hljóðalaust er þyngra en tárum taki.

5,55% vextir af svona upphæð eru ekkert smáræði. Þegar menn tala um að búið sé að tryggja hér höfuðstól og að þetta muni allt fást til baka vilja menn aldrei horfa á vextina sem af þessu hljótast. (Gripið fram í.) Vextirnir eru meginhættan í Icesave-samkomulaginu (Gripið fram í.) og alveg fram á síðustu mínútu eigum við að berjast fyrir því að kjör Íslendinga séu betri, alveg fram á síðustu stund eigum við að standa með íslensku þjóðinni (Gripið fram í: Heyr, heyr.) en ekki viðsemjendum okkar.