138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

afskriftir skulda og samkeppnisstaða fyrirtækja.

[11:16]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að biðja um þessa mikilvægu umræðu. Það eru brýn verkefni núna fram undan enda, eins og hann kom inn á, er áætlað að um 60–70% fyrirtækja þurfi á aðstoð að halda vegna skuldastöðu sinnar. Sum af þessum fyrirtækjum munu fara í þrot og sum hafa nú þegar farið í þrot þar sem ekki er rekstrargrundvöllur fyrir þau nema í hagkerfi þar sem ofþensla ríkir og neysla og fjárfestingar eru í hæstu hæðum. Guði sé lof er það nú þannig að mörg af fyrirtækjum okkar geta átt framtíðina fyrir sér en þurfa samt á umtalsverðri aðstoð að halda.

Við höfum á síðustu mánuðum séð fyrirtæki yfirtekin af bönkum og í sumum tilfellum koma fyrri eigendur hvergi nærri en í öðrum tilfellum hafa eigendurnir verið áfram aðilar að fyrirtækjunum með einhverjum hætti, enda hefur það verið metið eðlilegt vegna viðskiptatengsla og mikilvægrar þekkingar þeirra á málefnum fyrirtækjanna.

Nú er svo komið að bankakerfið er í stakk búið til að takast á við fyrirliggjandi verkefni, að taka á vanda þessara fyrirtækja, en þá eru stóru spurningarnar sem við stöndum frammi fyrir og hv. þingmaður hefur komið hér inn á og ég tek undir. Við alþingismenn verðum að tala varlega því að við megum ekki draga enn frekar úr trúverðugleika þingsins með gífuryrðum og innstæðulausum aðdróttunum. Ég vil þó leyfa mér að segja að í fjölda fyrirtækja hefur verið óábyrg stjórn og gríðarleg skuldsetning (Forseti hringir.) sem ekki var staðið undir. Ég vil bara segja að ég tel að það þurfi að líta til þess að þessum fyrirtækjum verði skipt upp til að stuðla að samkeppni og þau skráð á markað þannig að íslensk heimili geti fjárfest í þessum fyrirtækjum og stuðlað (Forseti hringir.) þannig að endurreisn Íslands.