138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

afskriftir skulda og samkeppnisstaða fyrirtækja.

[11:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að ræða hv. þingmanns sem talaði síðast var náttúrlega með miklum eindæmum eins og hans var von og vísa og ég vísa algerlega á bug öllum þeim ásökunum sem komu á mínar hendur og hv. þingmaður veit betur. (Gripið fram í.) En vegna gríðarlegrar málefnafátæktar ákvað hann að taka þessa línu. Og það er náttúrlega það sorglega í þessu máli sem við tölum nú um, og allir eru sammála um það, að eitt stærsta hagsmunamálið sem við höfum horft fram á er ekki nýtt mál.

Fyrir þá sem ekki vita ganga málin þannig fyrir sig að ráðherrunum eru sendar spurningar og þeir hafa tækifæri til að undirbúa sig og svara þeim málefnalega. Ég man aldrei eftir því að ráðherra hafi áður komið — og það hefur kannski aldrei verið mikilvægara en núna að ráðherra kæmi og talaði skýrt — og sagt: Ég get ekki svarað spurningunum, ég er búinn að setja málið í nefnd. Ég ætla að rifja upp, virðulegi forseti, fyrstu spurninguna. Hún er þannig:

Hyggst efnahags- og viðskiptaráðherra tjá sig á ný um afskriftir einstakra skuldara hjá íslenskum lánastofnunum?

Virðulegi forseti. Ráðherra ætlar að segja þetta mál í nefnd og láta hana svara því hvort hann geti tjáð sig aftur um málið. Málið er mjög alvarlegt og það sem er kannski einna alvarlegast er staðan hjá ríkisstjórnarflokkunum. Eftir allan þennan tíma, eftir að búið er að setja bankaráð, eignaumsýslufélög og Bankasýslu er eina svarið núna að skipa nefnd. Menn spyrja: Hvaða reglur eru í gildi? Hvernig á að framkvæma þetta? Af hverju fá sumir afskriftir og aðrir ekki? Það eru engin önnur svör frá ríkisstjórninni, sem ætlaði að starfa eftir gagnsæi og réttlæti, en að setja málið í nefnd.