138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

93. mál
[12:01]
Horfa

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga á þskj. 95, sem er 93. mál þessa þings, um breytingu á lögum nr. 47/2004, um þjóðgarðinn á Þingvöllum, með síðari breytingum. Flutningsmenn auk mín eru allir hv. nefndarmenn í Þingvallanefnd, alþingismennirnir Atli Gíslason, Björgvin G. Sigurðsson, Höskuldur Þórhallsson, Ragnheiður E. Árnadóttir, Valgerður Bjarnadóttir og Þorgerður K. Gunnarsdóttir.

Frumvarpið er einfalt. Lagt er til að við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi: „Þjóðgarðurinn“ — þ.e. þjóðgarðurinn á Þingvöllum — „er að öllu leyti undanþeginn lögum um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús.“

2. gr. frumvarpsins er síðan um gildistökuákvæði.

Í greinargerð kemur fram að þetta frumvarp var áður flutt á 136. löggjafarþingi af þáverandi hv. þingmönnum í Þingvallanefnd sem voru Björn Bjarnason, Össur Skarphéðinsson, Kolbrún Halldórsdóttir, Kjartan Ólafsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Höskuldur Þórhallsson og Lúðvík Bergvinsson.

Málinu var vísað til hv. allsherjarnefndar sl. vor sem lagði til að frumvarpið yrði samþykkt. En af því varð þó ekki, það komst aldrei til 2. umr. vegna mikilla anna í þinginu og kosninga sem þá stóðu fyrir dyrum. Þess vegna er málið endurflutt nú.

Markmiðið er, eins og kemur fram í greinargerð með nefndaráliti hv. allsherjarnefndar frá 136. löggjafarþingi á þskj. 924, einkum að tryggja að Þingvallanefnd geti samið um lengd leigutíma á lóðum undir sumarhús. Í lögum um frístundabyggð nr. 75/2008, um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, sem tóku gildi 1. júlí 2008, er m.a. að finna ákvæði um að ekki megi leigja lóðir undir frístundabyggð til skemmri tíma en 20 ára. Stefnumörkun varðandi þjóðgarðinn á Þingvöllum, sem full eining hefur verið um, er sú að festa ekki í sessi eða auka við frístundabyggð í þjóðgarðinum. Og með því að allir lóðarleigusamningar renna út næsta vor þykir bæði núverandi hv. Þingvallanefnd og hinni fyrrverandi ekki eðlilegt að festa leigutímann á lóðum til svo langs tíma, til a.m.k. 20 ára.

Aðalatriðið er þó kannski að Þingvallanefnd hafi sem ábyrgðaraðili á rekstri þjóðgarðsins heimild til þess að semja um lengd leigutíma á lóðum undir sumarhús í þjóðgarðinum án nokkurra takmarkana. Ekki var um það fjallað þegar lög voru sett um frístundabyggð og því er þetta frumvarp hér flutt til þess að taka af allan vafa um að land innan þjóðgarðsins falli ekki undir gildissvið laga nr. 75/ 2008, enda er þjóðgarðurinn á Þingvöllum fyrst og síðast þjóðgarður en ekki frístundabyggð.

Ég legg til, frú forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til hv. allsherjarnefndar og til 2. umr.