138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

93. mál
[12:09]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get fyllilega tekið undir orð hæstv. ráðherra um mikilvægi þess að tryggja þinghelgina og sérstöðu þjóðgarðsins og auðvitað er þjóðgarðurinn ekki hefðbundið frístundasvæði eða neitt slíkt, langt því frá. Ég talaði áðan um jafnræði, það sem ríkisvaldið sagði að ætti að gilda um alla, sveitarfélög og aðra landeigendur, en vill svo ekki sitja við sama borð þegar til kastanna kemur.

Ég var einn þeirra sem gagnrýndu þetta frumvarp um réttindi og skyldur í frístundabyggð harðlega og það var margt mjög gallað í því. Margt lagaðist nú á endasprettinum og það voru líka nokkrir jákvæðir þættir í því eins og til að mynda um að það væri skylda að stofna félög í sumarhúsabyggðum. Einn af ágöllum laganna sem gert hefur skipulags- og heilbrigðiseftirliti á Suðurlandi erfitt fyrir við að kljást við frístundabyggð innan þjóðgarðsins, er einmitt að hafa yfirlit yfir eignir þar og geta með einföldum hætti komið skilaboðum til eigenda um ýmsar breytingar sem hafa orðið á sérlögum varðandi vatnasvið Þingvallavatns o.fl. Með því að fella lög um frístundabyggð fullkomlega úr gildi fara líka jákvæðu þættirnir með sem snerta þó samskipti landeigandans eða sveitarfélagsins, sem sér um svæðið, við eigendur. Ég vil því ræða það innan Þingvallanefndar eða hér í þinginu að menn skoði hvort gera mætti breytingar á lögunum og fella þau ekki fullkomlega úr gildi (Forseti hringir.) eða hnýta einhverjum þeim viðbótum aftan við svo við fáum góðu hlutina með.