138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

staða efnahagsmála í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabankans.

[13:34]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um stöðu efnahagsmála eftir nýjustu ákvörðun Seðlabankans um 1% vaxtalækkun sem sannarlega er jákvæð aðgerð en er samt í heildarsamhengi hlutanna, við þær aðstæður sem eru uppi núna, mikil vonbrigði að við skulum ekki hafa gengið lengra eftir vaxtalækkunarbrautinni en raun ber vitni. Ljóst er að hvorki fólk né fyrirtæki, hvorki fjölskyldur né atvinnustarfsemi geta staðið undir þessari vaxtabyrði og það dugar ekki að vísa til þess að stór hluti atvinnustarfseminnar sé með lán sín í erlendri mynt vegna þess að við þurfum einmitt að brjótast út úr því ástandi og fara að koma fjármagni aftur á hreyfingu sem hér safnast upp í innlánum í bankakerfinu.

Ég tel að efnahagsmálin séu mál málanna í stjórnmálum dagsins í dag. Og stærstu mistök ríkisstjórnarinnar eru þau að einblína ekki umfram allt annað á aðgerðir í efnahagsmálum. Verkefnið er þetta: Að finna leiðir til að skera niður og finna sem breiðasta sátt um niðurskurðaraðferðirnar. Mér finnst hafa farið lítið fyrir umræðu eða samráði við aðra flokka, milli ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu, eða ríkisstjórnar og viðkomandi hagsmunaaðila um með hvaða hætti helst verður staðið að niðurskurðinum. Og síðan hitt: Hvernig getum við að nýju fengið tekjustofna ríkisins til þess að taka við sér?

Ríkisstjórnin hefur kynnt til sögunnar sína leið sem er fyrst og fremst leið skattahækkunar, til þess að brúa bilið. Og við í Sjálfstæðisflokknum höfum teflt fram sem valkosti við þá hugmyndafræði efnahagstillögum sem ganga út á það að óskynsamlegt sé við þær aðstæður sem núna eru uppi að bæta skattahækkunum ofan í ástandið og viljum frekar virkja frestaðar skatttekjur í lífeyrissjóðakerfinu til þess að brúa bilið yfir erfiðasta tímann.

Einkum er vakin athygli á tækifærum sem liggja í séreignarsparnaðarkerfinu til þess að ná tekjum inn til ríkisins sem áður hafði verið ákveðið að fresta að taka til sín, færa til í tíma þá skattheimtu þannig að hún muni geta skilað ríkinu, hinu opinbera, núna á næstu missirum allt að rúmlega 100 milljörðum. Til ríkisins færu þá um 70–75 milljarðar og 30–40 milljarðar til sveitarfélaganna sem þau mundi svo sannarlega muna mikið um.

En í stað þess að reyna að skapa þessa sátt, í stað þess að finna leiðir til þess að ná breiðri samstöðu um það með hvaða hætti við skerum niður í útgjöldum hins opinbera, útgjöldum ríkisins, og láta reyna á samstöðu um nýja tekjustofna hefur ríkisstjórnin ákveðið að fara sínar eigin leiðir. Reyndar eru þær með öllu óskiljanlegar eins og þær eru kynntar til sögunnar. Ég tók t.d. eftir því í gærkvöldi í sjónvarpsfréttunum að þar kom Gylfi Arnbjörnsson og greindi frá því að það mætti nú eiga von á því að ríkisstjórnin mundi draga úr skattahækkunaráformum sínum. Ég heyrði það fyrst frá honum. Síðan kom Steingrímur J. Sigfússon, hæstv. fjármálaráðherra, út af ríkisstjórnarfundi í morgun og staðfesti það sem Gylfi sagði okkur frá í gærkvöldi, að heldur yrði dregið í land með skattahækkanir, en hugmynd ríkisstjórnarinnar er sú að setja 37 milljarða í nýjar, auknar skattheimtur á einstaklinga í þessu landi.

Á sama tíma liggur fyrir að kaupmáttur er að dragast saman, að hluta til vegna þessara nýju hugmynda. Hann hefur dregist mikið saman undanfarið ár en í hagspá Seðlabanka Íslands er gert ráð fyrir að kaupmáttur muni halda áfram að rýrna um allt að 16% á næsta ári, ofan í atvinnuleysið, ofan í það ástand sem við búum við. Það gengur einfaldlega ekki lengur í þessu langstærsta hagsmunamáli okkar Íslendinga í dag, að finna á ný stöðugleika í efnahagsmálum, að þau vinnubrögð séu viðhöfð sem við höfum orðið vitni að. Það á við um alla þætti málsins, það á við um þessar hugmyndir um nýja skatta, ríkisstjórninni hefur tekist að eyðileggja samstöðu við aðila vinnumarkaðarins sem tekist hafði í sumar, stöðugleikasáttmálinn er kominn í fullkomið uppnám.

Þar fór stórkostlegt tækifæri forgörðum til þess að ná breiðri samstöðu um það með hvaða hætti við tækjum fyrstu skrefin í átt til nýs stöðugleika. Þar rann það ríkisstjórninni úr greipum. Og það gengur heldur ekki að ríkisstjórnin komi hér inn í þingið með fjárlagafrumvarp sem stöðugt tekur breytingum, fjárlagafrumvarp sem kynnir til sögunnar skatta, t.d. á orkunýtingarsviðinu, og nýja auðlindaskatta sem ekki hafa verið kynntir fyrir öðrum ráðherrum. Það sem okkur skortir hér er einhver festa, einhver skýr sýn á verkefnið og að ríkisstjórnin geri a.m.k. tilraun til þess að skapa sátt um aðferðafræðina. Við sjálfstæðismenn höfum gert mikið til að skapa umræðugrundvöll fyrir slíkan þátt með því að tefla fram mjög skýrum afmörkuðum efnahagstillögum, bæði í sumar og síðan aftur núna í haust.

Við það óvissuástand sem við búum við núna, á meðan áform um orkunýtingu eru í stanslausu uppnámi vegna aðgerða og aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar, á meðan áform um nýja skatta eru jafnóljós og raun ber vitni og líta jafnilla út miðað við efnahagsástandið, á meðan ekki hafa fengist skýr svör um með hvaða hætti eigi að taka á skuldavanda fyrirtækjanna, atvinnustarfseminnar í landinu, verður gríðarlega mikil sóun. Þá skjóta fyrirtæki undan eignum, þá tapa eigendur og rekstraraðilar fyrirtækjanna hvatanum til að halda áfram að skapa verðmæti og það verður ótrúleg sóun í íslensku efnahagslífi. Menn finna allar leiðir til að skjóta undan verðmætum, taka til sín eignir utan efnahagsreiknings og það sama gerist hér eins og alls staðar annars staðar þar sem óvissa og óöryggi ríkir, það verður stöðnun og hnignun. Og þetta mun allt saman leiða til þess að við verðum lengur að reisa okkur við en efni standa til.

Ég óska eftir því að fá svör frá ríkisstjórninni um hvort þær hugmyndir sem teflt hefur verið fram, t.d. hjá Sjálfstæðisflokknum, um aðrar leiðir við að auka tekjur ríkisins á þessum erfiðu tímum, verði teknar til skoðunar og hvort til greina komi að fella úr fjárlagafrumvarpinu allar nýjar hugmyndir um skatta en fara þess í stað leið skattlagningar á séreignarsparnaðinn. Ég held að það væri skynsamleg leið. Væri ríkisstjórnin tilbúin til að skoða þann möguleika gæti hér tekist miklu meiri og breiðari sátt en á við í dag um stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum sem er fyrst og fremst stefnuleysisstefna, þ.e. fullkomin óvissa um hvert á að fara í öllum þáttum sem máli skipta. Og það kemur einfaldlega til af því (Forseti hringir.) að flokkarnir tveir sem hér stýra för eru ósammála í öllum grundvallaratriðum.