138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

staða efnahagsmála í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabankans.

[13:42]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir að efna til þessarar umræðu. Ég veit að það gleður hann að ýmsar erlendar fjármálastofnanir hafa að undanförnu lýst vaxandi tiltrú á aðgerðum íslenskra stjórnvalda í efnahagsmálum og vilja til þess að styrkja viðskipti sín á Íslandi. Ramminn um efnahagslífið til næstu ára hefur verið mótaður, hann kemur fram í endurskoðaðri efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann kemur fram í þeim áherslum í ríkisfjármálum sem fjárlagafrumvarpið lýsir og hann kemur fram í endurfjármögnun bankanna. Mörg verkefni eru vissulega enn þá fram undan á þessum sviðum en gríðarlega mikið hefur áunnist á síðustu vikum og mánuðum í endurreisn íslensks efnahagslífs. Í fyrirliggjandi ramma efnahagsmála felast jákvæð skilaboð, bæði til erlendra og innlendra aðila.

Seðlabankinn hefur síðustu sjö mánuði lækkað stýrivexti sína úr 18% niður í 11% og innlánsvexti í 9%. Það er vissulega ánægjuefni fyrir fyrirtæki og heimili og vonandi verður áframhald á lækkun vaxta í næsta mánuði. Hins vegar má ekki gleymast að fyrir mikinn meiri hluta heimila er það gengið og verðbólga sem skiptir höfuðmáli, Seðlabankinn hefur því síðasta árið haft gengisstöðugleikamarkmið í ákvörðunum sínum og ríkisstjórnin hefur gert allt sem í hennar valdi stendur til að styðja við þá viðleitni bankans. Hinar stóru skuldir heimilanna eru verðtryggð húsnæðislán, hvert 1% veiking krónunnar veldur um 0,3% hækkun á vísitölu neysluverðs á um þremur mánuðum og það samsvarar um 6 milljörðum króna. 1% lækkun vaxta sparar heimilunum hins vegar aðeins nokkur hundruð milljónir króna á sama tíma.

Enda þótt verðbólgan hafi minnkað hægar en gert var ráð fyrir eru horfur á að hún fari hratt dvínandi á næstunni og væri það mikill ávinningur fyrir heimili og fyrirtæki. Undanfarna mánuði hefur gengið orðið stöðugra þótt það sé enn mun lægra en við vildum sjá. Sá aukni gengisstöðugleiki hefur ekki orðið á kostnað gjaldeyrisforðans því að inngrip Seðlabankans hafa minnkað verulega frá því í sumar. Eins og Seðlabankinn gerði svo skilmerkilega grein fyrir í gær hafa horfur í efnahagsmálum til næstu þriggja ára batnað frá því að bankinn gerði spá sína í ágúst sl. Útlit er fyrir að samdrátturinn verði minni í ár en þá var spáð, þ.e. 8,5% í stað 9,1% áður, enda var samdrátturinn fyrstu sex mánuði ársins aðeins 5,5%, ekki fjarri því sem önnur Evrópuríki hafa staðið frammi fyrir. Það er mun minni samdráttur en gert hafði verið ráð fyrir.

Einnig gerir Seðlabankinn nú ráð fyrir því að efnahagsbatinn verði aðeins hraðari en spáð hefur verið. Nú er gert ráð fyrir að landsframleiðslan taki að vaxa aftur á fyrsta ársfjórðungi næsta árs, það er um þremur mánuðum fyrr en búist hafði verið við, en er ákaflega mikilvægt til að keyra hagvöxtinn áfram. Við vonumst til að traust á íslenska fjármálakerfinu aukist hratt, ekki er við því að búast að það sé mikið um þessar stundir þar sem enn vantar endurskoðaða reikninga þeirra nýju banka sem tóku við föllnu stóru bönkunum, en breytingar á regluverki munu þó vafalaust auka traust á bankakerfinu. Hér verður ekki horfið til baka í þá áhættusæknu og fífldjörfu bankamennsku sem einkenndi síðustu ár, frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra um fjármálakerfið sem lagt verður fram fljótlega mun taka á krosseignatengslum, markaðsmisnotkun og öðru því sem helst átti hlut að hruninu.

Atvinnuleysi er einnig minna en óttast hafði verið, það er nú um 7%, þ.e. 2% lægra en í apríl þegar það var sem hæst. Seðlabankinn spáir því líka nú að atvinnuleysi verði mest innan við 10% árið 2010 í stað nærri 11% í spá bankans frá því í ágúst og það þýðir að 2.000 manns, umfram það sem spáð var, munu verða við vinnu. Við sjáum líka að ekki ber á brotthvarfi af vinnumarkaði né á verulegum landflótta eins og spáð var.

Reynt er eftir fremsta megni með fjölbreyttum vinnumarkaðsúrræðum og undirbúningi framkvæmda að halda uppi atvinnustigi. Útboð á veigamiklum vega- og samgönguframkvæmdum eru vel á komin og ýmsar framkvæmdir settar í útboðs- og framkvæmdaferil á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Viðræður um Búðarhálsvirkjun eru í fullum gangi, endurbætur á álverinu í Straumsvík, álveri í Helguvík, Suðvesturlína og orkuframkvæmdir á Norðausturlandi, allt eru þetta stórframkvæmdir sem unnið er að af hálfu ríkisstjórnarinnar og munu komast af stað ef aðstæður á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum leyfa.

Ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um að stuðla að byggingu nýs Landspítala með þátttöku lífeyrissjóða.

Ég vil einnig nefna að fyrirliggjandi frumvarp um ívilnanir til nýsköpunarfyrirtækja munu skapa slíkri atvinnustarfsemi ákjósanleg skilyrði á Íslandi, verði það að lögum, sem ég vona að verði sem fyrst. Allt skiptir þetta verulegu máli til að tryggja sem hæst atvinnustig hér á landi á næstu missirum.

Það sem er líka mikilvægt er að skuldatryggingarálag á Íslandi er nú helmingi lægra en það var í sumar og það segir sína sögu. Fyrsta skrefið í átt að afnámi gjaldeyrishafta hefur verið tekið, nú eru engin höft lengur á þeim fjárfestingum sem koma inn í landið. Í kjölfar samþykktar AGS á fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunar hefur Orkuveita Reykjavíkur fengið aðgang að lánsfjármagni og það kann að greiðast úr fyrir öðrum orkufyrirtækjum á næstunni. Íslenskt fyrirtæki, stoðtækjafyrirtækið Össur, hefur lokið við vel heppnað hlutafjárútboð með þátttöku erlendra fjárfesta og það eru mikilvæg tímamót.

Erlendar skuldir þjóðarbúsins í heild eru mjög háar, þ.e. 310%, en það skiptir þó höfuðmáli að erlendar skuldir hins opinbera nema 130% af landsframleiðslu. Á móti þeim skuldum koma þó miklar eignir, m.a. er hrein erlend staða Seðlabankans 222 milljarðar við júnílok.

Vegna minni samdráttar, minna atvinnuleysis, lægra framlags til nýju bankanna og lægri vaxtagjalda en reiknað var með býst fjármálaráðuneytið nú við því, og það er skýringin á því sem hv. þingmaður nefndi hér áðan, að aðlögunarþörf ríkissjóðs minnki um á að giska 20 milljarða króna á næsta ári og verði 52 milljarðar í stað 72 milljarða. Það þýðir að ríkið geti dregið úr nauðsynlegum skattahækkunum sem þessu nemur og skiptir sannarlega máli fyrir heimilin og atvinnulífið.

Þrátt fyrir að kjör almennings muni fara versnandi og þröngt muni verða um atvinnulíf á næstu missirum horfum við á það í heildina að kjör almennings færist ekki lengra aftur en þegar verst lætur í það horf sem þau voru á árinu 2004, en það var einmitt árið þegar einkavæðingu bankanna lauk og loftbóluhagkerfið tók við.

Við höfum á síðustu tíu mánuðum náð mikilvægum áföngum í endurreisn efnahagslífsins og lagt fram áætlanir og vegvísa sem við höfum fengið staðfestingu á að skili okkur áleiðis. Staðreyndin er sú að við sjáum sterkar vísbendingar um jákvæða þróun og að við getum unnið okkur tiltölulega hratt upp úr kreppunni. Allt bendir til þess að besta leiðin út úr vandanum sé að halda í meginatriðum gerðar áætlanir og þann ramma í efnahagsmálum sem settur hefur verið. Það er vissulega brekka fram undan og veturinn verður erfiður en allar vísbendingar sýna að við erum á réttri leið.

Hv. þingmaður lagði fyrir mig nokkrar spurningar sem ég skal svara að hluta til hér og líka í síðari ræðu minni. Ríkisstjórnin hefur sannarlega skoðað þær hugmyndir sem sjálfstæðismenn hafa lagt fram um skattlagningu á innborgunum eða iðgjöldum til lífeyrissjóðanna og fá út úr því verulegar tekjur. Niðurstaðan er í stórum dráttum sú að þetta er ekki skynsamleg leið, þetta er lántaka inn í framtíðina sem eyðileggur lífeyristryggingakerfið og ávísar (Forseti hringir.) vandanum yfir á framtíðina. Ég skal koma að þessu máli og öðrum sem hv. þingmaður spurði um, í (Forseti hringir.) síðari ræðu minni.