138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

staða efnahagsmála í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabankans.

[13:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Seðlabankinn lækkaði, eins og hér hefur verið rætt, stýrivexti um eitt prósentustig en það gleymist jafnan í þeirri umræðu að á sama tíma hækkaði bankinn vexti á innstæðufé. Það er það sem skiptir í raun öllu máli, þeir vextir sem borgaðir eru fyrir peninga sem geymdir eru í Seðlabankanum. Þeir eru fráleitlega háir og kosta ríkið gífurlegar upphæðir. Það er sem sagt verið að borga fyrir það að halda peningum úr umferð á Íslandi á sama tíma og lönd um allan heim lækka vexti, jafnvel niður í 0%, til að koma hagkerfunum af stað.

Áhrifin á gengið eru til að mynda ljós í Ungverjalandi sem hefur gengið í gegnum áfall sem jafnast nánast á við það íslenska. Þar hafa vextir verið lækkaðir jafnt og þétt nú um nokkurt skeið og gengi gjaldmiðils Ungverja hefur styrkst jafnt og þétt á sama tímabili, enda hníga engin rök að því að halda þessu háa vaxtastigi, engin nema að gera vel við þá jöklabréfaeigendur sem sitja hér fastir og eru á framfæri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ríkisstjórnarinnar sem fylgir í einu og öllu stefnu sjóðsins sem því miður hefur hvergi gefist vel.

Á sama tíma er ríkisstjórnin í óðaönn að skapa stöðugt meiri óvissu fyrir íslenskt efnahagslíf og íslensk heimili, hækka skatta á versta hugsanlega tíma og ráðast, í gegnum bankana, í mjög óljósar aðgerðir er varða leiðréttingu á skuldum. Bankarnir margir hverjir og starfsemi þeirra kalla eftir leiðsögn frá stjórnvöldum svo þeir viti þá hvernig þeir eiga að haga vinnu sinni. Sú leiðsögn kemur ekki og á meðan skapast enn meiri óvissa, fyrst og fremst um það hvaða reglur gilda um úthlutun skuldaleiðréttingar.

Eitt er þó ljóst og það er að heimilin í landinu eiga ekki að fá skuldaleiðréttingu. Það hefur hæstv. félagsmálaráðherra ítrekað, sérstaklega eftir nýtt frumvarp ráðherrans sem svo kemur á daginn að er af nákvæmlega sama meiði og öll efnahagsstefna þessarar ríkisstjórnar, gengur út á að fresta vandanum þó að það feli í sér að vandinn aukist enn eftir því sem tíminn líður. Þetta hefur leitt m.a. til þess að landflótti heldur áfram. Það er nefnt að atvinnuleysi fari minnkandi, en þá er ekki reiknað með þeim þúsundum manna sem hafa yfirgefið landið vegna þess að þeir fengu ekki vinnu.

Í þeim gríðarlegu erfiðu aðstæðum sem hér ríkja í efnahagsmálum gerir ríkisstjórnin í raun allt öfugt við það sem hún ætti að gera, ýtir undir óvissu, hækkar álögur á heimili og fyrirtæki og heldur peningum og fjármagni úr umferð þegar við þurfum hvað mest á því að halda. Afleiðingin er sú að grunnstoðir samfélagsins sem voru sterkar fyrir og voru til þess búnar að skapa gríðarleg verðmæti eru farnar að skaðast verulega og það getur fest kreppuna í sessi um langa framtíð.