138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

staða efnahagsmála í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabankans.

[14:00]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Hún var athyglisverð, þulan sem hæstv. forsætisráðherra þuldi hér áðan. Við eigum að hverfa aftur til ársins 2004. Það var alveg ljómandi gott ár. En hvað gerði Samfylkingin þá? Þá voru allir helstu sérfræðingar hennar dregnir fram og þeir sögðu að hér væri allt í volæði, hvort sem kæmi að félagslega kerfinu eða öðru. Skattalækkanir okkar voru allt í einu túlkaðar sem skattahækkanir. 2004 var líka árið sem vel að merkja Samfylkingin og Vinstri grænir komu í veg fyrir að hér yrðu samþykkt fjölmiðlalög. Sú umræða bíður síðari tíma. Ég ætla að ræða fyrst og fremst um atvinnumálin og skuldir heimilanna. Við sjálfstæðismenn höfum stutt þær breytingar sem til að mynda félagsmálaráðherra og ríkisstjórnin hafa kynnt en þær ganga allt of skammt. Þetta eru smáskammtalækningar sem á endanum kunna að stuðla að því að sjúklingurinn muni deyja.

Ég ætla að vitna í orð manns úti í bæ, með leyfi forseta:

„Greiðsluaðlögun — og nú síðast „greiðslujöfnun“ eru algerlega misheppnaðar aðgerðir — og sl. föstudag komu fram fulltrúar m.a. frá ASÍ og Íbúðalánasjóði og fleirum fram í fjölmiðlum og réðu fólki frá því að nýta sér greiðslujöfnun verðtryggðra lána — af því hún væri „ekki lausn“ …

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur afhjúpað nauðsyn þess að fara í umfangsmiklar skuldaleiðréttingar hjá fjölskyldunum í landinu …

Árni Páll Árnason verður að stíga til baka; biðjast afsökunar á einstrengingi sínum — og kalla aðila til efnislegs samráðs um skjóta og skilvirka „endurskipulagningu verðtryggðra skulda heimilanna“ — ef félagsmálaráðherrann er ekki reiðubúinn til að bregðast við þessari afhjúpun AGS — þá á hann líklega ekki annarra kosta völ en segja af sér ráðherradómi.“

Hér er ekki sjálfstæðismaður að tala, vel að merkja, en það er hægt að taka undir þessi orð. Þetta eru flokksmenn forsætisráðherra, flokksmenn félagsmálaráðherra tala með þessum hætti, því að málið er nefnilega risavaxið. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur að afskriftaþörf fjármálafyrirtækja vegna skulda heimilanna geti hljóðað upp á 600 milljarða kr. Þess vegna ítrekum við sjálfstæðismenn það sem við sögðum í sumar: Við teljum miklu skipta að hér náist breið sátt, hér verði skipaðir þverpólitískir hópar til að fara yfir þessi mál skjótt og vel með aðilum úti í bæ, m.a. frá Hagsmunasamtökum heimilanna, en svo virðist sem ríkisstjórninni sé algjörlega fyrirmunað að hlusta á frjáls félagasamtök í bænum sem ráðleggja þeim, hvort sem er í Icesave-málinu, það mátti ekki hlusta á Indefence, hvað þá að það eigi að hlusta núna á Hagsmunasamtök heimilanna.

Það er hægt að fara út í svo marga hluti, ekki síst þá gölnu skattapólitík sem ríkisstjórnin rekur. Fjármálaráðherra mætir í viðtal í vikunni fyrir tveimur dögum og segir glaðbeittur: Nú ætlum við að hækka staðgreiðsluna upp í 50%. Það þýðir að meðaltali að ein mánaðarlaun á ári hjá meðalfjölskyldu verða tekin af henni og sett í ríkissjóð.

Þetta er galin skattapólitík og við erum að fara þá leið sem síst á að fara. Við eigum að fara þá leið sem við sjálfstæðismenn erum búin (Forseti hringir.) að tala fyrir, við eigum að skoða aðrar leiðir eins og m.a. inngreiðslur af séreignarlífeyrissparnaði sem mun skila hinu opinbera (Forseti hringir.) 115 milljörðum.