138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

staða efnahagsmála í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabankans.

[14:14]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Það einkennilega viðhorf sem við stöndum frammi fyrir er að ríkisstjórninni virðist mikið kappsmál að verða við óskum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á sviðum sem eru hreinlega skaðleg samfélagi okkar eins og vaxtastefnan sem ráðgjafar AGS leggja til. En hæstv. ríkisstjórn hunsar ráðgjöf sem lýtur að því að aðstoða heimilin í landinu.

Í fréttum á RÚV má finna viðhorf lögfræðings, ráðgjafa frá yfirstjórn félags- og tryggingamálaráðuneytisins, með leyfi forseta:

„Svigrúm til að fella niður skuldir heimilanna er um 600 milljarðar. Þetta kemur fram í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Svigrúmið verður notað fyrir þá sem verst eru staddir, segir lögfræðingur í félagsmálaráðuneytinu.

Í skýrslunni segir að niðurstaða uppgjörsins milli nýju og gömlu bankanna gefi nýju bönkunum svigrúm til að fjármagna niðurfellingar skulda. Það svigrúm markist af muninum milli lánanna eins og þau voru og nýja matsvirðisins.

Í skýrslunni segir að þetta svigrúm yrði notað varfærnislega og undir eftirliti skilanefnda gömlu bankanna. Rætt var um að aðferðin við skuldbreytingar eða niðurfellingar mundi aðallega byggjast á frjálsum samningum milli lánastofnunar og skuldara. […]

Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur í félagsmálaráðuneytinu, segir að unnið verði með svigrúmið eftir skýrum og gagnsæjum reglum með opinberu eftirliti. Það feli í sér að þeir sem eiga miklar eignir þurfi að minnka við sig, en þeir sem eru með venjulegan fjölskyldurekstur þurfa þess ekki.“

Það hefur verið krafa samfélagsins lengi að höfuðstóll skulda heimilanna verði færður niður. Meira að segja Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ráð fyrir hugsanlega 600 milljörðum til þess. En þá stígur fram á sjónarsviðið lögfræðingur félagsmálaráðuneytisins og einn helsti ráðgjafi hæstv. félagsmálaráðherra og virðist hafna slíkri aðgerð upp á sitt eindæmi. Er þetta einnig viðhorf hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli?

Það er skoðun okkar í Hreyfingunni að mál af þessu tagi eigi ekki að vera á forræði félagsmálaráðuneytisins heldur á forræði fjármálaráðuneytisins því að málefnið varðar skuldir langflestra heimila landsins. Við skulum í það minnsta vona að staða heimilanna sé ekki svo slæm að þau þurfi öll á félagslegri aðstoð að halda — nema það sé kannski stefna velferðarstjórnarinnar. Er það kannski stefna ríkisstjórnarinnar að gera alla landsmenn að þurfalingum?