138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

staða efnahagsmála í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabankans.

[14:16]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu umræðu um stöðuna í efnahagsmálum okkar Íslendinga í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabankans. Mér sýnist nokkur samhljómur í salnum um að vextir hafi enn ekki lækkað nægilega mikið, enda engin furða því að vextir eru enn þá í tveggja stafa tölu á kreppulandinu Íslandi.

Hér er mikið talað um traust, að við séum á góðri leið með að endurvekja traust á fjármálastofnunum o.s.frv., traust til ríkisstjórnarinnar fari vaxandi og erlendir fjármögnunaraðilar séu farnir að sýna þess merki að þeir séu tilbúnir til að treysta okkur aftur á Íslandi. Ég vil einfaldlega segja um þetta, í fyrsta lagi varðandi fjármálakerfið, bankana, að þá fagna menn því núna að okkur hafi tekist að framkvæma kraftaverk með því að endurreisa bankana á þeim tíma sem liðinn er frá hruninu. Þegar lagt var af stað í samstarfinu með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum taldi hann raunhæft að koma bönkunum á lappirnar í febrúarmánuði á þessu ári. Kannski var það fullkomlega óraunhæft en það er furðulegt að hlusta á fulltrúa sama Alþjóðagjaldeyrissjóðs tala um það núna að við höfum sett einhvers konar heimsmet í endurreisn banka þegar þeir töldu sjálfir fyrir ári að við ættum að vera búnir að þessu í febrúar, alveg undarlegt.

Traust á Íslandi mun byggjast á þessu hér: Erum við að eyða umfram það sem við öflum? Um það snýst kjarni málsins. Þess vegna er svo alvarlegt að ríkisstjórnin er ósammála um þætti sem geta aukið tekjur ríkisins, nema þá kannski það að best sé að gera það með því að hækka skatta. Í nýrri skýrslu frá ríkisendurskoðanda kemur fram að hinir nýju skattar ríkisstjórnarinnar frá því í sumar skila ekki þeim tekjuauka sem að var stefnt. Þetta á við um alla skattstofna. Það er ekki línulegt samhengi á milli þess hversu mikið prósentan hækkar og tekjurnar vaxa. Ríkisstjórnin er líka alveg örugglega að ofáætla tekjuáhrifin af nýjum sköttum. Það er sorglegt að horfa upp á það hér, ef það á að vera meginniðurstaða þessarar umræðu, að ríkisstjórnin hafi þrátt fyrir að hafa hugsað málið og fengið ábendingar um aðrar leiðir ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að það verði einfaldlega að hækka skattana, jafnvel þannig að skattar á einstaklinga fari hátt í 50%. Þeir voru ekki svo háir áður fyrr ef menn ætla að horfa til þess að við sjálfstæðismenn höfum í stjórnartíð okkar lækkað skattana of mikið.

Hvernig var þetta fyrir kosningarnar 2003? Var það ekki þannig að allir flokkar vildu lækka skatta? Ég man ekki betur en að Samfylkingin hafi fyrir þær kosningar komið með skattalækkunarpakka sem átti að lækka tekjur ríkisins um u.þ.b. 20 milljarða. Nú koma þeir og segja: Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem lækkaði skattana allt of mikið.

Förum upp úr þessu fari. Horfum fram á veginn. Hættum að vera með þessar fingrabendingar um löngu orðna hluti. Förum að ræða framtíðina. Ég held að þjóðin krefjist þess af okkur á þinginu að við förum að horfa fram á veginn, taka til alvöruumfjöllunar þá valkosti sem eru á borðinu í öllum málum.

Ríkisstjórnin er stefnulaus. Ég var gagnrýndur fyrir að segja þetta áðan en ég bara bendi á nokkra þætti, t.d. orkumálin. Ríkisstjórnin er ósamstiga þar. Flokkarnir greiddu atkvæði hvor í sína áttina í Helguvíkursamningnum fyrr á þessu ári og við vitum alveg hvernig umræðan varð í kjölfar þess að fjárlagafrumvarpið kom fram og skattarnir þar komu til umræðu. Líka í skattamálum eru ríkisstjórnarflokkarnir tveir ósammála. Það á líka við um önnur mál sem hafa verið til umfjöllunar, Evrópusambandsmálið og jafnvel Icesave-málið, sjálfur Icesave-samningurinn sem undirritaður var í júní gat ekki orðið grundvöllur samstöðu í ríkisstjórninni. Það hefur ríkt mjög mikið stefnuleysi í grundvallarmálum og við köllum eftir því að hér verði aukið samráð um þessar erfiðu ákvarðanir. Við í Sjálfstæðisflokknum erum tilbúnir til að taka þátt í að axla ábyrgð á erfiðum ákvörðunum, bæði ákvörðunum sem leiða til þess að hér þurfi að skera niður og ákvörðunum (Forseti hringir.) sem lúta að því að koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang.