138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

staða efnahagsmála í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabankans.

[14:21]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram þótt mér finnist hún oft og tíðum ekki hafa verið alls kostar sanngjörn. Við erum að takast á við gríðarlega erfiðleika og mér finnst að fólk gleymi því stundum að hallinn í ár sem við erum að takast á við er 253 milljarðar kr., 17% af landsframleiðslu. Við erum að reyna að glíma við það á þessu og næsta ári að koma hallanum niður um 100 milljarða þannig að hann verði 150 milljarðar. Það er auðvitað ekkert smátt að glíma við og auðvitað tekur einhvers staðar í, bæði að því er varðar skatta og niðurskurð. Erlendar skuldir þjóðarbúsins eru vissulega allt of miklar og líka erlendar skuldir ríkisins, en við erum þó ekki með neitt met í því. Írland er með margfalt meiri skuldir og Bretland líka svo dæmi séu nefnd. (BJJ: Það gerir stöðuna ekki betri hér.)

Við erum líka að súpa seyðið af ýmsum röngum ákvörðunum sem voru teknar í aðdraganda hrunsins. Ef við skoðum t.d. stærsta einstaka kostnaðarlið ríkisins af banka- og gjaldeyrishruninu tapaði Seðlabankinn 270 milljörðum kr. í hrunadansinum og það tap er að líkindum stærra en raunkostnaðurinn verður við Icesave-reikninginn. Það er rétt að halda því til haga að bara vaxtagjöldin á árinu 2010 vegna þessa taps Seðlabankans eru áætluð 7,5 milljarðar kr. sem við þurfum að borga. Það slagar upp í sömu upphæð og við þurfum á að halda til að geta skilað fólkinu í landinu fullum persónuafslætti þannig að menn skulu skoða einstaka liði í stóru samhengi. Þegar hv. þm. Bjarni Benediktsson segir allar nýjar hugmyndir um skatt eigi að fara út af borðinu verður hv. þingmaður að koma með hvað á að koma í staðinn en ekki óraunhæfar hugmyndir um skattlagningar úr lífeyrissjóðunum.

Mér finnst líka ósanngjarnt sem fram hefur komið hjá framsóknarmönnum, t.d. hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, þegar hann segir að við séum að leggja allt á bæði skatta- og útgjaldahlið til að ná niður hallanum og að hér sé engin viðleitni til að auka umsvif í hagkerfinu eða greiða fyrir nýjum fjárfestingum. Það er auðvitað alrangt. Það er ótrúlegt að hv. þingmaður skuli fara með slíkt í ræðustólnum. Ég fór yfir það áðan, virðulegi forseti, hvað er á döfinni, hvað hafi verið samþykkt í ríkisstjórninni í morgun. Tímans vegna get ég ekki endurtekið það en það er í vegaframkvæmdum, orkuframkvæmdum og ýmsum öðrum framkvæmdum. Við erum að greiða fyrir nýfjárfestingum og nýsköpun með skattaívilnunum o.s.frv. Það er því fullkomin ósanngirni af hv. þingmanni að halda því fram að hér sitjum við bara yfir því hvernig við getum hækkað skatta á fólki og hvernig við getum skorið sem mest niður. (Gripið fram í.) Það er auðvitað engin sanngirni í því.

Auðvitað hef ég áhyggjur af atvinnuleysinu eins og aðrir hér inni, en við skulum halda því til haga að við höfum þó náð því að það er minna — þó að það sé allt of mikið — en spáð var, það er 7–8%. (Gripið fram í.) Á evrusvæðunum er atvinnuleysið miklu meira, um 9%, í Bretlandi um 8%, á Spáni 19%, (Gripið fram í.) Írlandi 12%, Bandaríkjunum 9,8% þannig að við skulum bara líta á hlutina í samhengi en ekki að við séum í einhverri sérstöðu hér varðandi mikið atvinnuleysi o.s.frv.

Varðandi skattlagninguna, jafnvel þó að farið væri í skattlagningu með þeim hætti sem menn hafa rætt eru skattar hér þó miklu lægri en víða annars staðar. Og ég vil segja það að við erum enn að reyna með aðilum vinnumarkaðarins að ná sátt um þá skattlagningu (Forseti hringir.) sem verður bæði á fyrirtækin og einstaklingana.