138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[14:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef bæði átt viðræður við forsvarsmenn lífeyrissjóða og þá tryggingasérfræðinga sem fara með úrvinnslu réttinda hjá þeim sjóðum um þessi mál þannig að ég hef átt skoðanaskipti við þá og ég tel það vera afskaplega mikilvægt, ef það svarar spurningu hv. þingmanns.

Varðandi getu lífeyrissjóðanna til að fjárfesta og hér var Landspítalann nefndur sérstaklega sem verkefni upp á 53 milljarða, þá er það, ef ég man rétt, 1,3% af eignum lífeyrissjóðanna. Það er ljóst að ef menn fara t.d. leiðina varðandi séreignarlífeyrissparnaðinn mun það hafa mjög lítil áhrif á getu lífeyrissjóðanna til að koma að fjárfestingum. Mér finnst ekki rétt að að persónugera þetta þannig að það snúi að forsvarsmönnum lífeyrissjóðanna hvort þeir séu tilbúnir til að taka á þessum málum eða ekki. Lífeyrissjóðirnir eru eitthvað sem við greiðum öll í og höfum gert. Við höfum byggt lagaumhverfi til langrar framtíðar í tengslum við lífeyrissjóðina og það kemur okkur öllum við hvernig þeir koma að málum. Ég veit alveg að margir forsvarsmenn lífeyrissjóða hafa aðrar skoðanir en við sjálfstæðismenn hvað þetta varðar. Það er sjálfsagt en ég mun ekki ætla þeim að beita refsingum ef þeirra sjónarmið, einstakra aðila þar inni, ná ekki fram. Það væri mjög sérkennilegt og ég ætla mönnum ekki slíkt og ég vona og trúi því ekki að hv. þingmaður hafi verið á þeirri vegferð. Það væri auðvitað fráleitt. Stóra málið er að vinna okkur út úr þessu. Við höfum komið með vel útfærðar tillögur og getum fært rök fyrir þeim og það er gott og mjög mikilvægt að við getum átt orðaskipti um þetta. Í rauninni ætti það að vera stóra einstaka málið á þinginu núna að ræða efnahagsmálin.