138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[14:53]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil lýsa yfir mikilli ánægju með þá viðleitni sjálfstæðismanna á þingi að tefla fram tillögu til þingsályktunar um nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands í efnahagsmálum þjóðarinnar. Við framsóknarmenn höfum lagt fram tillögur okkar í þessu efnum og tillögurnar eru að mörgu leyti keimlíkar. Það er mikilvægt að við á Alþingi tölum um málefni heimilanna, um efnahagsmálin og að hvaða aðgerðum við þingmenn getum stuðlað til að draga úr þeirri miklu kreppu sem blasir við okkur öllum. Ég vil þess vegna taka undir með hv. þm. Ólöfu Nordal þegar hún talaði um samráð áðan og meint samráðsleysi á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég er alveg sammála því að við hljótum að sakna þess að ekki skuli fleiri stjórnarliðar vera viðstaddir umræðuna en að undanförnu hefur enginn stjórnarliði setið í salnum. Það er mjög miður vegna þess að á tyllidögum tala stjórnarliðar um samráð, samstöðu og samvinnu og þegar kemur að stórum málum, og hér eru til umræðu undirstöðumál dagsins í dag, sjálf efnahagsmálin, þá skortir verulega á að þingmenn stjórnarflokkanna taki þátt í þeirri umræðu.

Ég verð aðeins að fá að nefna að við vorum að ræða áðan utan dagskrár um efnahagsmálin og hæstv. forsætisráðherra sagði í síðustu ræðu sinni að ég hefði vegið ómaklega að ríkisstjórninni með því að tala um að hún talaði nær eingöngu um niðurskurð og skattahækkanir þegar kæmi að tillögum til úrbóta. Bent var á að í morgun hefði verið samþykkt í ríkisstjórn að ráðast í ýmsar vegaframkvæmdir og er það vel. En hvers vegna sagði ég þetta? Ég sagði þetta vegna þess að ríkisstjórnin hefur boðað orku- og auðlindaskatt. Hvað hefur komið í ljós eftir að ríkisstjórnin tilkynnti um þau áform sín? Mörg hundruð störf, m.a. í garðyrkju eru í hættu vegna þessa og mörg hundruð störf í iðnaði eru í hættu. Og þegar við vitum að 13–14 þúsund Íslendingar eru án atvinnu erum við um leið að horfa upp á að mörg hundruð störf gætu orðið til og orðið að veruleika ef menn mundu ekki grípa til óhóflegrar skattlagningar. Og þegar ríkisstjórnin beitir sér með þessum hætti segi ég: Með þessum aðgerðum er ríkisstjórnin að vinna gegn hagsmunum okkar. Við eigum að fjölga störfum í íslensku samfélagi.

Af því að hv. þm. Þráinn Bertelsson gengur fram hjá mér þá vil ég minna á það sem hann hefur bent á að skert framlög, m.a. til kvikmyndagerðar hér á landi, munu draga verulega úr atvinnu í þeim geira á sama tíma og við horfum á mikið atvinnuleysi. Ríkisstjórnin þarf að hafa þetta heildarsamhengi fyrir framan sig þegar hún tekur ákvarðanir.

Þá er ég kominn að því sem við gagnrýnum ríkisstjórnina fyrir, nær daglega á þingi, það er þetta samráðsleysi, þetta endalausa samráðsleysi. Við í stjórnarandstöðunni þurfum að gagnrýna tillögur og hugmyndir sem ríkisstjórnin leggur fram, vegna þess að þetta er lagt fram án þess að ræða það við okkur og án þess að ræða það við Samtök atvinnulífsins eða Alþýðusamband Íslands. Ríkisstjórnin stendur dálítið ein í allri ákvarðanatöku og við komum yfirleitt að orðnum hlut og þá bíður okkar það verkefni á þinginu að leiða ríkisstjórnina aftur inn á rétta braut, oftar en ekki í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Þá fáum við á okkur þann stimpil að við séum dálítið mikið að nöldra á vettvangi þingsins. En það er vegna þess að okkur er ekki hleypt að borðinu þegar ákvarðanirnar eru teknar. Væri ekki nær á þeim tímum sem blasa við okkur í dag að ríkisstjórnin tæki sér tak og hefði víðtækt samráð við stjórnarandstöðuna og mikilvæga aðila úti í samfélaginu þegar kemur að stórum ákvarðanatökum? Við þurfum að standa saman, við þurfum að standa sameiginlega að ákvarðanatökunni en þegar við horfum upp á það í máli eftir máli að ríkisstjórnin ein telur sig þess umkomna að vita hvað þjóðinni er fyrir bestu, án þess að ræða við okkur hina 29 þingmennina sem eru í andstöðu á þingi þá er hún því miður á rangri braut.

Frú forseti. Þessar ágætu tillögur eru skoðunarverðar og mig langar í fyrsta lagi að nefna það sem rætt er um varðandi skuldavanda þar sem segir, með leyfi frú forseta:

„Leiðrétta verður of mikla skuldsetningu heimilanna í landinu. Mynda skal sérfræðingahóp sem fjalli um leiðir til þess. Hópurinn verði skipaður fulltrúum allra stjórnmálaflokka og aðila vinnumarkaðarins.“

Ég fagna þessari tillögu og ég hef raunar talað fyrir því í marga mánuði á vettvangi þingsins hvort það væri ekki eðlilegast að menn, sérfræðingar úr öllum stjórnmálaflokkum og aðilar vinnumarkaðarins mundu setjast yfir þann gríðarlega vanda sem skuldir heimilanna eru. Það kom fram í fréttum í gær að Seðlabankinn telur að íslensku bankarnir hafi svigrúm til að afskrifa 600 milljarða kr. gagnvart húsnæðiseigendum í landinu. Nú horfi ég á Pétur Blöndal og við höfum ekki verið alveg sammála um hvernig eigi að nálgast það mál að leiðrétta skuldir heimilanna en við erum öll sammála um að það verður að grípa til einhverra aðgerða. Til þess þurfa menn að setjast niður, en ég hef hvorki heyrt hósta né stunu frá ríkisstjórninni í þá átt, enga viðleitni til að setjast niður þvert á flokka og kalla til aðila utan úr samfélaginu til að fara yfir þann gríðarlega vanda sem skuldsetning íslenskra heimila er. Á sama tíma blasir það við að við erum með hæstu stýrivexti í heimi. Það er einfaldlega ekki hægt að búa við þetta. Hæstv. forsætisráðherra kemur upp og lýsir því nærri yfir að við höfum slegið heimsmet í lækkun á stýrivöxtum, úr 18% niður í 11%. Við erum samt með eina hæstu stýrivexti í heimi. Við erum samt með skuldugustu heimilin í heimi og við erum með skuldugasta atvinnulífið í heiminum. Svo talar ríkisstjórnin fyrir því að efla þurfi atvinnulífið. Hvernig eflum við atvinnulífið við þetta vaxtastig? Það er ekki hægt. Það stendur enginn atvinnurekstur undir öllum þeim ofurskuldum og ofurvöxtum sem blasa við okkur öllum. Við köllum einfaldlega eftir því í stjórnarandstöðunni að ríkisstjórnin taki í útrétta hönd okkar og fari að vinna með okkur ásamt öðrum hagsmunaaðilum í samfélaginu.

Mig langar í öðru lagi, af því að tíminn styttist, að nefna þá kerfisbreytingu sem lögð er til ásamt skattlagningu á lífeyrisgreiðslum sem gæti skilað um 100 milljörðum á þremur árum, u.þ.b. 35 milljörðum á ári. Í því samhengi held ég að ég fari rétt með að fyrirhugaðar skattahækkanir á heimili og fyrirtæki í landinu með hækkun á neyslusköttum eru 55 milljarðar á næsta ári. Ég þekki til margra íslenskra heimilda sem glíma við gríðarlegan skuldavanda, eru í miklum vanda með að borga reikninga sína og fá þá slíka kveðju frá Seðlabankanum, að áætlanir geri ráð fyrir að 16% lækkun verði á kaupmætti á næsta ári. Ofan á þá stöðu sem blasir við okkur í dag. Þetta hlýtur að vekja okkur til umhugsunar um að við verðum að grípa til einhverra framkvæmda og aðgerða í þeim efnum. Þess vegna vil ég taka undir það að við þurfum að skoða allar hugmyndir. Menn tala um að við séum með þessu að taka lán til framtíðar. Hæstv. forsætisráðherra sagði það áðan. Ég veit ekki betur en hver einasti dagur á Alþingi hafi fjallað um að við séum að taka hin og þessi lán. Við erum einfaldlega í mjög erfiðum málum og við verðum að grípa til allra þeirra leiða sem geta komið okkur út úr þeim brimskafli sem við erum í. Margir glíma við mjög erfið skilyrði í dag og eiga erfitt með að standa undir skuldbindingum sínum og það er skylda okkar á Alþingi Íslendinga að taka höndum saman, sama hvar í flokki við stöndum, og grípa til aðgerða þannig að fólk fyllist ekki vonleysi og lendi hreinlega í einhverri ómögulegri stöðu, því það eru vissulega tækifæri til staðar. Við höfum bent á að tækifærin eru til staðar með því að leggja hér fram efnahagstillögur, bæði framsóknarmenn og sjálfstæðismenn. Því miður er of lítið á þessar metnaðarfullu tillögur hlustað. Við getum komið okkur út úr vandanum en til þess verðum við að grípa til aðgerða og ekki bara hvaða aðgerða sem er, réttra aðgerða til að við fáum tiltrú á því að hér sé gott að búa. Við erum ein menntaðasta þjóð veraldar, við erum með einar mestu auðlindir, hvort sem það er orkan eða sjávarútvegurinn. Tækifærin eru út um allt. Við þurfum bara að nýta þau tækifæri sem eru til staðar. Við í stjórnarandstöðunni höfum bent á margar leiðir í þeim efnum og ég vil í lok þessarar umræðu auglýsa eftir að fá a.m.k. einn stjórnarliða í salinn, ég bið ekki um meira, þannig að það séu alla vega tvö eyru sem hlusta á þá mikilvægu umræðu sem hér fer fram um þau grundvallarmál sem efnahagsmál þjóðarinnar eru. Við erum í erfiðum málum sem við þurfum að leysa.