138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:24]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég sé mig knúinn til að koma aftur í þessa ágætu umræðu. Ég auglýsti eftir því að stjórnarliðar mundu taka þátt í og vera viðstaddir þá grundvallarumræðu sem efnahagsmálin eru en þeir hafa því miður ekki látið sjá sig, hvorki ráðherrar né þingmenn. Því miður er þetta mjög alvarlegt. Ég vil líka benda á að við framsóknarmenn fluttum í gær frumvarp til laga um breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu sem miðar að því að koma ákveðnu hámarki á hvað fólk þurfi að borga í verðtryggingu út af verðbólgunni og setja niður áætlun um það hvernig við megum afnema verðtrygginguna í nokkrum skrefum. Það kom á óvart í þeirri grundvallarumræðu að enginn samfylkingarmaður mætti til að ræða það uppbyggilega mál. Hér er enginn samfylkingarmaður í dag. Það hefur þó verið aðaláhugamál hæstv. forsætisráðherra í gegnum þá áratugi sem hún hefur verið í stjórnmálum, hún hefur talað fyrir því að afnema ætti verðtrygginguna.

Maður veltir því þess vegna fyrir sér hvort hugur fylgi máli. Það er ekki góður svipur á Alþingi Íslendinga að við komum hér upp til skiptis, sjálfstæðismenn og framsóknarmenn, til að ræða þessi mikilvægu mál og fáum eiginlega engin viðbrögð frá stjórnarliðum. Ég er farinn að upplifa mig dálítið sem svo, og farinn að ímynda mér, að það séu kannski þeir sem tali hér sem stýri þessu landi, en svo er ekki.

Þegar ég minntist á það í fyrri ræðu minni hvað þessi orku- og auðlindagjöld gætu haft í för með sér, til að mynda gagnvart grænu stóriðjunni, garðyrkjubændunum, þar sem hundruð starfa gætu jafnvel tapast vegna áætlana sem ríkisstjórnin hefði lagt fram — við sóttum hart að Vinstri grænum í þeirri umræðu — þá koma hv. þingmenn þess ágæta stjórnmálaflokks upp eins og þeir væru enn í stjórnarandstöðu, eins og þeir væru ekki búnir að átta sig á því að það eru raunverulega þeir sem eiga að stýra landinu.

Við köllum eftir því enn og aftur, og ég vonast til að þingmennirnir séu að horfa á okkur í gegnum vef Alþingis, að við höfum meira samráð um þau grundvallarmál sem við ræðum hér. Við verðum að fara að grípa til mikilvægra aðgerða. Ég held að við séum öll sammála um það. En það að 34 þingmenn skuli taka þessar ákvarðanir og skilji hina 29 þingmennina eftir, það er einfaldlega ekki góður svipur á því. Það að frumvörp sem við leggjum fram og þingsályktunartillögur skuli hafa dagað uppi í nefndum þingsins, hafi ekki komið til atkvæðagreiðslu á vettvangi Alþingis — stjórnarliðar gætu þá fellt þær tillögur — sýnir náttúrlega í hvers lags sandkassaleik Alþingi Íslendinga er, þegar menn þora ekki að taka umræðuna, afgreiða mál út úr nefndum og greiða svo atkvæði um það á lýðræðislegan hátt. Ég hef tekið sveitarstjórnarstigið sem dæmi. Þar koma fulltrúar minni hlutans sínum málum yfirleitt fram með þeim hætti að það er a.m.k. tekin afstaða til tillagna þeirra, þær eru felldar eða samþykktar.

Á Alþingi Íslendinga, vöggu lýðræðisins á Íslandi, komast eiginlega engin mál stjórnarandstöðunnar svo langt. Ef hið nýja Ísland, sem við ætlum að reisa hér, ætti ekki að taka mið af því, af breyttum vinnubrögðum á vettvangi þingsins, þá verður ekkert nýtt Ísland. Ef við breytum ekki vinnuaðferðunum á vettvangi þingsins almennilega þá munu hlutirnir ekki breytast. Það hefur verið grátlegt að sitja á vettvangi þingsins síðustu mánuði og leggja fram ýmsar hugmyndir og tillögur í efnahagsmálum sem ekki hefur verið hlustað á. Við hljótum að spyrja í þessari umræðu: Er það svo að allar bestu hugmyndir í efnahagsmálum komi einungis frá forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar og ekki sé vert að hlusta á tillögur sem við leggjum fram í stjórnarandstöðunni eða aðilar vinnumarkaðarins?

Það hefur sýnt sig á síðustu mánuðum að ríkisstjórnin hefur ekki alltaf haft rétt fyrir sér þegar kemur að tillögum og úrbótum í efnahagsmálum. Oftar en ekki hafa stjórnarandstæðingar og Samtök atvinnulífsins, aðilar vinnumarkaðarins, þurft að benda ríkisstjórninni á að hún sé á rangri braut. Það er kannski þess vegna sem þetta virkar dálítið mikið nöldur hér en staðreyndin er einfaldlega sú að okkur er ekki hleypt að neinni ákvörðunartöku, við þurfum að vinda ofan af vitlausum ákvörðunum sem því miður eru allt of oft teknar.

Vonandi hafa stjórnarliðar eitthvað fylgst með umræðunni hér í dag sem hefur verið gagnleg. Hér er um að ræða tillögur frá sjálfstæðismönnum sem ég tel vert að skoða í efnahags- og skattanefnd. Vonandi getum við hrundið einhverjum af þeim í framkvæmda fyrr en síðar.