138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:47]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum nýtt miklu lægra hlutfall orkunnar sem við höfum úr að spila á Íslandi en aðrar þjóðir og það er alveg sama hvert við horfum, til Evrópu, Norðurlandanna. Norðmenn eru t.d. með miklu hærra hlutfall nýtanlegrar orku nú þegar virkjaða en við Íslendingar og það er nóg pláss fyrir viðbótarframkvæmdir, eins og t.d. álver í Helguvík, þó að við ætlum jafnframt að koma upp gagnaverum og annarri slíkri starfsemi þar sem hún er ekki næstum því jafnorkufrek og álverin.

Síðan eru auðvitað líka að gerast hlutir eins og t.d. það að uppi í Búrfelli fundu menn með nýrri tækni leiðir til að stórauka aflið úr virkjuninni án þess að það væri notað neitt meira vatn eða annað sérstakt gert til þess að virkja. Við höfum fengið u.þ.b. 90 megavöttum meira út úr Kárahnjúkavirkjun í dag en menn gerðu ráð fyrir til lengri tíma. Ég held að við eigum líka að horfa til þess vegna þess að það hefur verið mjög mikil umræða um mengunina frá álverum. Þar hafa verið að gerast stórkostlegir hlutir á undanförnum áratugum, t.d. í Straumsvík þar sem álverið frá árinu 1990 til ársins 2009 hefur dregið um 50% úr losun þrátt fyrir að hafa tvöfaldað framleiðsluna. Það þýðir að það álver mengar í dag fjórðung af því sem það gerði árið 1990 og það þrátt fyrir að ekki hafi verið lagðir neinir skattar eða settir kvótar á útblásturinn. Álver eru því fyrirtæki sem eru líka í örri þróun.

Varðandi orkunýtinguna að öðru leyti vil ég segja það að okkar bíða alveg ábyggilega mikil tækifæri í djúpborunum á jarðhitasvæðunum sem munu skila miklu meira afli en við höfum náð að virkja í dag. Tíminn mun bara vinna með okkur að þessu leytinu til.