138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

fyrirhugaðar skattahækkanir.

[13:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það er greinilegt að búið er að leka miklum og merkilegum upplýsingum um verulegar skattahækkanir. Þess vegna er nauðsynlegt að fá að draga það fram hvaða viðhorf hæstv. iðnaðarráðherra hefur til þeirra skattahækkana sem boðaðar eru. Það er mikilvægt að fá hér skýrt fram hvort hún hafi vitað af þeim. Er hún búin að samþykkja að orkuskatturinn verði 20 aurar á kílóvattstund eða er sú samsetning sem við heyrum núna í fjölmiðlum fantasíumatseðill iðnaðarráðherra eins og hún talaði um að ætti að setja fram þegar fjárlagafrumvarpið var kynnt? Er þetta fantasíumatseðill iðnaðarráðherra í þessu máli?

Ég spyr hæstv. iðnaðarráðherra sem tók á sunnudaginn á móti kröfugerð Suðurnesjamanna sem vilja atvinnu, vilja skýr svör frá ríkisstjórninni: Er þetta svarið, eru þetta skilaboð ríkisstjórnarinnar til Suðurnesjamanna? 1.600 manns eru atvinnulausir á Suðurnesjum. Eru þetta skilaboðin til fjölskyldnanna, til fyrirtækjanna? Þessar skattahækkanir fara beint út í verðlagið og níðast þá um leið á buddum fjölskyldnanna í landinu. Ég spyr hæstv. iðnaðarráðherra sem er líka byggðaráðherra: Er þetta svarið til landsbyggðarinnar? Það er verið að níðast á sjávarútveginum, það er verið að níðast á landbúnaðinum með þessum leiðum, hvað þá ferðaþjónustunni. Þið vitið að hækkun á kolefnisgjaldinu mun til að mynda fara beint út í eldsneyti, m.a. á flugvélar sem þar af leiðandi hefur hækkanir í för með sér á farmiðum o.fl. Það þýðir ekki að setja einhverja fimmkalla í markaðssetningu á ferðaþjónustunni ef menn ætla síðan að koma í veg fyrir að ferðamenn geti ferðast um landið.

Ég spyr hæstv. iðnaðarráðherra: Er þetta svar iðnaðarráðherra til Suðurnesjamanna? Er þetta svarið til atvinnulausra í landinu? Er þetta fantasíumatseðill hæstv. iðnaðarráðherra?