138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

samgönguáætlun.

[13:54]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Varðandi það síðasta sem hv. þingmaður spurði um, skýrslu um framkvæmd samgönguáætlunar, þá er hún hér, vinnuútgáfa nr. 2 til yfirlestrar. Í henni eru nokkrar stafsetningarvillur og nokkrar feitletraðar áherslur vantar á verkin í Norðvesturkjördæmi þannig að það þarf bara að koma fram.

Í fyrra var samþykktur á hinu háa Alþingi svokallaður viðauki við gildandi samgönguáætlun. Þar var farið í gegnum það sem þar var gert. En auðvitað er hárrétt sem hv. þingmaður sagði áðan, vitanlega setti efnahagshrunið síðasta haust strik í reikninginn eins og við sjáum í niðurskurði sem við höfum mátt þola og fá á okkur til framkvæmda. Þar af leiðandi hefur vinnu við endurskoðun samgönguáætlunar auðvitað seinkað hvað það varðar vegna þess að það þýðir ekki að fara að leggja fram einhverja draumaáætlun með einhverjum peningum sem við erum ekki viss um að fá. Það þarf að setja inn í ríkisfjármálin úr hverju við höfum að spila (Forseti hringir.) og þannig leggjum við okkar fram og þá verður samgönguáætlun lögð fyrir hið háa Alþingi og til vinnslu í hv. samgöngunefnd.