138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

rafbyssur.

[13:57]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Umræða um rafbyssur hefur átt sér stað um nokkra hríð og verið til skoðunar bæði í ráðuneytinu og hjá embætti ríkislögreglustjóra. Í ársskýrslu ríkislögreglustjóra fyrir árið 2008 kemur fram sú skoðun að veita eigi sérsveit heimild til að bera rafbyssur. Í sjálfu sér má segja að tæknilega sé þessi ákvörðun hjá embætti ríkislögreglustjóra, þ.e. að ákveða hvaða vopn lögregla eigi að bera. Ég tel hins vegar að taka þurfi ákvörðun um þetta mál með gegnsæjum hætti og jafnvel íhuga hvort birta eigi opinberlega reglur um hvaða valdbeitingartæki lögregla hefur. Tilvitnuð skýrsla Amnesty International er sem sagt í ráðuneytinu en þetta mál er í sjálfu sér ekki á því stigi að það sé beinlínis til umræðu í ráðuneytinu, heldur hefur það frekar verið til umræðu hjá ríkislögreglustjóra.

Í þessu sambandi verður líka að íhuga almennt með þau vopn sem lögregla ber og beitir hvaða vopn það eru. Ef rafbyssur eru bornar saman við venjulegar byssum mundi þá sú skoðun vera uppi að rafbyssur væru vægara tæki. Vissulega má þó færa rök fyrir því að rafbyssur séu harðara tæki borin saman við kylfur og önnur tæki lögreglunnar. (Gripið fram í: Þetta er …)