138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

rafbyssur.

[14:00]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég legg áherslu á að í fyrra svari mínu sagði ég að í sjálfu sér væri unnt að gera þetta án þess að til kæmi frekari umræða en hjá embætti ríkislögreglustjóra. Ég lagði jafnframt áherslu á að ég teldi að þessi ákvörðun yrði að vera tekin með upplýstum hætti og að það væri gert á þann hátt að almenningur hefði tækifæri til að kynna sér hana og hvaða gögn lægju til grundvallar. Þá er ég að tala almennt um það hvaða valdbeitingartæki lögregla hefur.