138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

fundarstjórnarumræða og dagskrá fundarins.

[14:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil gera alvarlega athugasemd við þá fundarstjórn sem var hér viðhöfð áðan er forseti meinaði þingmönnum að taka til máls undir liðnum Um fundarstjórn. Ég vil koma því skýrt á framfæri við frú forseta að það getur ekki gengið. Ef frú forseti ætlar að beita sér með þeim hætti sem hún gerði hér þarf að ræða það sérstaklega, að mínu viti, því að þetta er ekki það sem við þurfum hér á Alþingi, að þingmönnum sé ekki hleypt upp undir þeim liðum sem þeir mega sannarlega taka til máls. Ég tek því undir það með hv. þingmanni að þetta þarf að taka upp á fundum þingflokksformanna með forseta og það munum við svo sannarlega gera. Ég skora á frú forseta að láta eitt yfir alla ganga hér í þingsal. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)