138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

fundarstjórnarumræða og dagskrá fundarins.

[14:18]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Þau tíðindi áttu sér stað, það kann að vera að þau hafi farið fram hjá hv. þingmanni sem hér síðast talaði, að fram kom í máli ráðherra hér áðan ýmsar þær upplýsingar sem varða stórkostlegt hagsmunamál fyrir fjölskyldurnar og heimilin í landinu sem snúa að skattheimtu. Og það var á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram komu, bæði frá hæstv. menntamálaráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra, sem talin var ástæða af hálfu Sjálfstæðisflokksins að gera breytingar á þeirri dagskrá sem liggur hér fyrir, í það minnsta að koma fram skilaboðum til forseta um að nauðsynlegt væri að grípa til ráðstafana nú þegar til að knýja á að framkvæmdarvaldið komi hér inn í þingið og ræði skattamál. Það var það sem lá fyrir.

Hvað varðar áhyggjur hv. þingmanns á stöðu minni sem þingflokksformanns get ég sagt honum að hann þarf engar slíkar áhyggjur að hafa. Þetta var einmitt það sem ég hafði lagt upp með í upphafi, að við mundum gera það úr því að svona fór í umræðunni, þegar þetta lá fyrir. Og hitt er líka rangt hjá hv. þingmanni að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi ekki tekið þátt í atkvæðagreiðslu, menn gengu hér út úr salnum til þess að ráða ráðum sínum, til að komast að niðurstöðu (Forseti hringir.) um hvernig bregðast skyldi við þeirri fundarstjórn (Forseti hringir.) sem ég tel að hafi verið röng. Og ég held að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hljóti að vera mér sammála um að fundarstjórn eins og við urðum vitni að hér áðan (Forseti hringir.) getur ekki gengið upp.