138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

fundarstjórnarumræða og dagskrá fundarins.

[14:19]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég hef fullt traust á hv. þingmanni Illuga Gunnarssyni sem formanni þingflokksins. (Gripið fram í.) Ég er hins vegar hingað kominn til þess að verja hæstv. forseta. Formaður Sjálfstæðisflokksins kom í pontu og vísaði til upplýsinga sem fram hefðu komið um skattamál og hann óskaði eftir því að dagskrá þingsins yrði breytt væntanlega til þess að geta rætt þau mál. Hvað gerði hæstv. forseti þá? Hún lýsti því yfir að þá tillögu vildi hún ræða sérstaklega við formenn þingflokka að undangenginni þeirri utandagskrárumræðu sem búið var að tilkynna að færi fram í dag. Ég verð nú að segja það alveg eins og er að á 12 ára ferli í stjórnarandstöðu fékk ég aldrei slíkt rausnarboð frá þeim forsetum sem þá sátu. Ég tel sem sagt að forseti þingsins hafi í reynd gengið lengra en henni bar til þess að uppfylla þá friðarskyldu sem hún hefur sem forseti þingsins, hún býður formönnum þingflokka, þar með töldum hv. formanni þingflokks sjálfstæðismanna, (Forseti hringir.) Illuga Gunnarssyni, upp á að ræða þessar óskir formanns Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst þess vegna hæstv. forseti hafi staðið sig vel við að stýra þessum fundi.