138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

fundarstjórnarumræða og dagskrá fundarins.

[14:23]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að koma með vinsamlega ábendingu til virðulegs forseta, vegna þess að hæstv. forseti má ekki taka því persónulega þó svo að þingmenn hér slái í borðið og óski eftir að ræða fundarstjórn forseta. Það er ekkert persónulegt. Ég tók t.d. eftir því að frú forseti var of upptekin áðan þegar formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, var að tala, eflaust við það að reyna að leysa málið og ákveða að funda með þingflokksformönnum. En hún var tilbúin til þess að slá í bjölluna og stoppa þingmanninn af og skipa honum að ræða um fundarstjórn forseta þegar hún áttaði sig á því að þingmaðurinn var jú að ræða fundarstjórn forseta.

Ég vil beina því í fullri vinsemd til hæstv. forseta að taka þessu ekki persónulega. Þetta er réttur okkar þingmanna. Við megum gera athugasemdir ef okkur finnst við hafa eitthvað við fundarstjórn forseta að athuga og (Forseti hringir.) ég hlakka til að gera slíkar athugasemdir í framtíðinni.