138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

fundarstjórnarumræða og dagskrá fundarins.

[14:26]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða eðli máls samkvæmt fundarstjórn forseta og ég ætla að hrósa virðulegum forseta fyrir hvernig hún tók á málinu og var það bara til mikillar fyrirmyndar. Það er algjörlega fráleitt að vera með þá dagskrá eins og hún er í dag miðað við þær upplýsingar sem komið hafa fram. Ræður hæstv. ráðherra og þessi sérkennilegi fréttaflutningur eru þess eðlis að við þurfum að ræða það í þinginu. Við getum ekki látið eins og ekkert sé þegar menn tala hér um stórkostlegar skattahækkanir — stórkostlegar skattahækkanir — sem aldrei var talað um fyrir kosningar, hvað þá fyrir viku síðan eða mánuði síðan.

En, virðulegi forseti. Hins vegar er það þannig að þrátt fyrir að virðulegur forseti sé mjög hæf og ég beri fyllsta traust til hennar, er virðulegur forseti ekki skyggn. Þegar hv. þingmenn biðja um að fá að ræða fundarstjórn forseta veit forseti ekki endilega hvað þar er á ferðinni. Við verðum þess vegna að halda þeim rétti að fá að tala undir fundarstjórn (Forseti hringir.) forseta.