138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

fundarstjórnarumræða og dagskrá fundarins.

[14:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ekki er mér kunnugt um skyggnigáfu frú forseta. Hins vegar er alveg ljóst að það mun verða kalt í neðra ef Bjarni Benediktsson er farinn að tala fyrir hönd framsóknarmanna eða annarra manna úr öðrum flokkum hér í þessum sal. Það er alveg ljóst. Sá sem hér stendur, (Gripið fram í.) ásamt þingmönnum úr öðrum flokkum, bað um orðið um fundarstjórn forseta hér í upphafi þegar frú forseti ákvað það, eins og ég skildi málið, að hv. þm. Bjarni Benediktsson væri að tala fyrir hönd annarra þingmanna sem báðu um orðið. Það er ekki þannig. Við eigum sama rétt og aðrir þingmenn þannig að það gengur ekki að frú forseti beiti sér með þessum hætti. Ég vil bara koma þessu á framfæri, ekki síst ef hæstv. utanríkisráðherra er hér á sveimi, af því hann gaf það í skyn í ræðu sinni að þetta hefði allt verið mjög eðlilegt. Það er ágætt að upplýsa hæstv. utanríkisráðherra um að það voru fleiri þingmenn en hv. þm. Bjarni Benediktsson, og úr öðrum flokkum, sem báðu um orðið, svo því sé haldið til haga.