138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

fundarstjórnarumræða og dagskrá fundarins.

[14:31]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Ég er nýr þingmaður á þessu þingi og verð að viðurkenna að síðasta hálftímann rúman hef ég verið mjög hugsi. Mér finnst þetta ekki sérstaklega skilvirk umræða. Ég held að við ættum öll að líta eilítið í eigin barm vegna þess að það er alveg með eindæmum að horfa upp á þetta. Hér greip forseti mjög snemma inn í og lýsti því yfir að hún ætlaði að fá fund með þingflokksformönnum til þess að ræða óskir þær sem fram komu. Við erum núna búin að eyða 35 mínútum í að mér finnst — (Gripið fram í: Veist þú um allar óskir?) Frú forseti, ég tel að þeir sem töluðu hér á undanförnum 35 mínútum hafi um leið seinkað því að væri hægt að taka málið á dagskrá og verða við óskum þeirra þingmanna sem báru fram þessa ósk í upphafi. Ég verð því að viðurkenna að ég er mjög hugsi. Ég held að þetta sé ekki skilvirkt fyrirkomulag og legg til að við endurskoðum þetta.