138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

aukning aflaheimilda.

[14:35]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja að ég hef engar athugasemdir við fundarstjórn forseta. Menn hafa farið mikinn og hér eru tveir pennar sem menn hafa gleymt en þeir hljóta að taka þá á eftir.

Það sem ég vil ræða er einmitt leið til þess að við getum lokað fjárlagagatinu sem okkur öllum er mikið í mun að gera. Ég hef talað fyrir því í nokkrar vikur að við bætum við aflaheimildir. Ég vil samt í upphafi máls míns taka sérstaklega fram að ég er ekki að leggja fram neinar tillögur sem ég tel að muni hafa áhrif á uppbyggingu stofnanna, eingöngu það sem ég tel að sé raunhæft.

Í þeim greinum sem hef skrifað og hugmyndum sem ég hef haldið fram hef ég lagt til að þorskkvótinn verði aukinn um 40.000 tonn á þessu fiskveiðiári. Það mun þýða, frú forseti, örlitla stækkun á veiðistofni og hafa óveruleg áhrif á hrygningarstofn. Ég tel því að það sé mjög varlega áætlað að fara í breytingar af þessu tagi. Einnig vil ég taka fram að hrygningarstofninn af þorskinum var 130.000 tonn árið 1983 en náði hámarki á árinu 2008 í 253.000 tonnum þannig að ég tel að með þessu sé ekki verið að gera neitt sem veldur því að við göngum óvarlega um þennan mikilvæga stofn okkar. Eins langar mig að benda á að í viðmiðunartölum fyrir árið 2008 var áætluð stofnstærð þorsks árið 2009 650.000 tonn en síðan kom fram í rallinu að hún væri 702.000 tonn sem er 8% aukning.

Ég hef talað fyrir því og við sjálfstæðismenn að 7.000 tonnum verði bætt við ýsukvótann sem við teljum að sé mjög varlegt líka. Hann verði aukinn sem sagt úr 63.000 tonnum í 70.000 tonn og það eru mörg rök sem hníga að því. Mig langar að velta upp í sambandi við það sem er að gerast hjá Hafrannsóknastofnun, að á fjögurra ára tímabili frá 1999 til 2003 lagði Hafrannsóknastofnun til að heildaraflamark á þessum fjórum árum yrði 130.000 tonn en síðan voru veidd 171.000 tonn. Það var því farið 32% umfram ráðgjöfina. Hvað gerðist í kjölfar þess? Það var bætt við ráðgjöfina og hún aukin úr 30.000 tonnum í 55.000 tonn, þ.e. 83% aukning varð á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar eftir að búið var að veiða 32% umfram hana í fjögur ár.

Síðan langar mig líka að benda á í sambandi við ýsuna að fram kemur í skýrslu Hafrannsóknastofnunar að hjá fjögurra ára ýsu er meðalþyngdin í rallinu 862 gr en í veiðinni, sem er þá líka staðreynd, er meðalþyngdin á sama árgangi 1.235 gr. Ég tel því að það þurfi að skoða mjög vel hvað veldur því að þetta gerist og tel enga áhættu tekna með því að bæta 7.000 tonnum við ýsukvótann nú þegar.

Þá komum við að ufsanum. Þar vildi ég að menn bættu við 15.000 tonnum vegna þess að undanfarið hefur verið mjög mikil og góð veiði á ufsa. Ufsinn er líka flökkufiskur og það er erfitt að henda reiður á honum. Þessu til áréttingar er einn netabátur á veiðum núna búinn að veiða 630 tonn af slægðum ufsa í 20 löndunum. Ef við gerðum þetta, og náttúrlega í heildina allt saman, mundum við að sjálfsögðu skapa mjög mikið af störfum, tekjum og gjaldeyri.

Mig langar einnig að koma aðeins inn á grálúðuna. Ég tel ekki rétt að minnka grálúðukvótann úr 15.000 tonnum niður í 12.000 tonn vegna þess að þetta er deilistofn og við Íslendingar erum þeir einu sem minnkum veiðina. Hinir gera það ekki þannig að við erum einir að minnka hana og ég tel það ekki skynsamlegt. Við eigum að halda okkur við að veiða 15.000 tonn.

Ég sé mér til mikillar ánægju að það var verið að dreifa nýju frumvarpi frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þar kemur hann inn á það sem ég hef verið að tala um, að bæði megi bæta 2.000 tonnum við skötuselinn og einnig að það eigi að skylda menn til þess að veiða fisk til manneldis, þ.e. makrílinn. Þar erum við að henda fimm, sex milljörðum af verðmætum sem við gætum nýtt öðruvísi ef við bara nýttum hann til manneldis.

Ég vona svo sannarlega, frú forseti, að við munum eiga málefnalegar umræður um einmitt þetta mál en ekki eitthvað annað í umræðu nú á eftir.