138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

aukning aflaheimilda.

[14:40]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir að efna til þessarar umræðu um aflaheimildir. Ég vil þó undirstrika að það er grundvallaratriði fyrir okkar þjóð, sem svo sannarlega er í vanda stödd eftir röð mistaka sem leitt hafa yfir okkur meiri erfiðleika en þekkst hafa á lýðveldistímanum í efnahagsmálum, að hún gangi samt varlega um náttúruauðlindir sínar og af ábyrgð. Sjálfbær nýting auðlinda okkar hlýtur að vera hornsteinn framtíðar sem við viljum sjá rísa eftir áföllin miklu. Þetta varðar ekki síst auðlindir hafsins, fiskstofnana sem hér eru til umræðu, enda var hv. þingmaður einmitt á sömu skoðun og ég í máli sínu.

Langtímanýtingarstefna er lykilorð í fiskveiðistefnu og í kjölfar ályktana á alþjóðavettvangi um sjálfbæra þróun hafa alþjóðastofnanir á sviði auðlindastjórnunar og vísindastofnanir þeim tengdar, auk vísindamanna einstakra þjóðlanda, unnið að þróun aðferðafræði sem stuðlar að árangri á þessu sviði. Það er líka ljóst að geti aðilar í sjávarútvegi sýnt fram á að afurðir þeirra komi úr sjálfbærum fiskveiðum hefur það verulegt markaðslegt forskot. Geti þeir það ekki er hætta á að verðmætir markaðir geti jafnvel tapast. Því er mikilvægt í dag að ná árangri á þessu sviði og geta sýnt fram á að gengið sé fram af ábyrgð við nýtingu auðlindarinnar.

Á vettvangi Alþjóðahafrannsóknaráðsins hafa þessi mál einmitt verið á dagskrá og vinnureglur ráðgjafaráðsins byggja nú í grundvallaratriðum á því vinnulagi sem gerir ráð fyrir að tryggja að stofn haldist innan ákveðinnar fyrir fram skilgreindra viðmiðunarmarka og því marki sé náð með skilgreindri nýtingarstefnu, svo sem með ákvörðun hæfilegs fiskveiðidauða. Á slíkum grunni ákvað fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra árið 2007 að færa nýtingarhlutfall í þorskveiðum í 20% af viðmiðunarstofni svo stuðla mætti að betri nýliðun og meiri veiði á viðkomandi ári. Sú aðgerð var talin nauðsynleg til að styrkja hrygningarstofninn sem hafði verið í sögulegri lægð árin á undan. Þessa nýtingarstefnu festu fyrirrennarar mínir í ríkisstjórn í sessi til næstu fimm ára og hafa farið þess á leit á vettvangi Alþjóðahafrannsóknaráðsins að gerðar verði prófanir á þessari nýtingaráætlun svo að staðfesting fáist á því að hér sé um sjálfbærar og ábyrgar veiðar að ræða. Aflareglan getur síðan verið til endurskoðunar að því tímabili loknu.

Ég vil geta þess, frú forseti, að okkur er mikilvægt að við stundum sjávarútveg okkar, fiskveiðar, á sjálfbæran hátt og getum sýnt fram á það þannig að alþjóðasamfélagið viðurkenni það.

Ég vil samt leggja áherslu á varðandi áherslur hv. þingmanns hér áðan að ég hef þegar gripið til nokkurra aðgerða til að freista þess að ná fram hámarksnýtingu á þeim aflaheimildum sem veittar eru á yfirstandandi fiskveiðiári. Þar vil ég fyrst nefna að byggðakvóti er auglýstur miklu fyrr en áður og það þýðir vonandi að hann nýtist fyrr. Þá hef ég ákveðið í dag að gefa út reglugerð um síldveiðar þar sem upphafsaflamark er ákveðið 40.000 tonn, sem eru væntanlega miklar gleðifréttir fyrir þá sem í hlut eiga og þjóðfélagið allt. Í mínum huga liggur ljóst fyrir að sá makrílafli sem ákveðinn verður á næsta ári verði meiri en á þessu ári. Þeirrar ákvörðunar er að vænta alveg á næstunni.

Verði frumvarp um breytingu á stjórn fiskveiða, sem dreift hefur verið hér í dag, að lögum munu tiltekin atriði í því hafa strax áhrif á þessu fiskveiðiári. Stórauknar veiðar á skötusel á þessu fiskveiðiári eru allt að 2.000 tonnum eins og hv. þingmaður minntist á. Tilfærsla milli ára verður aðeins 10% á þessu fiskveiðiári til að tryggja að sá afli eða þær aflaheimildir verði nýttar á árinu. Gerðar eru breytingar á flutningi aflamarks milli skipa og á grundvelli veiðigjalds sem án alls vafa ætti að vera hvetjandi t.d. til veiða á úthafsrækju. Þá eru gerðar breytingar á línuívilnun til þess að sú heimild verði nýtt að fullu.

Að þessu gefnu sem ég hef sagt vil ég tiltaka að ég mun fylgjast náið með þróun mála og í samráði við Hafrannsóknastofnun og samtök sjómanna og útgerðarmanna taka þær ákvarðanir sem nauðsynlegar kunna að verða. Þetta þýðir að ég ætla alls ekki að slá út af borðinu að aflaheimildir verði auknar en fyrir því verða að liggja nægileg og sterk rök til þess að hægt sé að taka um það ákvörðun, frú forseti.