138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

aukning aflaheimilda.

[14:52]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni Ásbirni Óttarssyni fyrir þessa umræðu og fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli. Þingmaðurinn færði góð rök fyrir máli sínu og sýndi á sannfærandi hátt að með tillögunni væri ekki verið að ganga það nærri stofnunum að einhver hætta skapaðist af. Það hefði sem sagt ekki áhrif á uppbyggingu stofnanna. Þess vegna eru þetta skynsamlegar tillögur að mínu mati sem þingmaðurinn leggur hér fram, í púkkið, sem leið út úr því ástandi sem við eigum við að etja núna.

Áhættan fyrir hagkerfið að gera þetta ekki er að mínu mati meiri en sú áhætta sem það hefði í för með sér að gera þetta. Kostirnir eru svo yfirgnæfandi og áhættan fyrir stofnana er lítil sem engin, eins og þingmaðurinn sýndi fram á. Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð er að vinna okkur út úr þeim vanda sem við er að etja. Þess vegna ber okkur hreinlega skylda til þess að fara yfir alla möguleika, allar forsendur, velta við hverjum einasta steini til þess að auka verðmætasköpun í landinu, til þess að koma vinnufúsum höndum í vinnu, skapa störf og auka verðmæti. Þetta snýst einmitt um að skapa tekjur fyrir þjóðarbúið.

Ef farið yrði að tillögum hv. þingmanns værum við að tala um auknar tekjur fyrir þjóðarbúið upp á í kringum 30 milljarða. 30 milljarðar í auknar gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbú sem þarf svo sannarlega á þeim að halda. Ef við beitum nýtilkomnum skattatillögum, hvað svo sem til er í þeim, gætum við sagt að af 30 milljörðunum fari u.þ.b. 40% í laun, það eru um 12 milljarðar, og 47% skattur gæfi þá allt að því sex milljarða króna, ekki það að ég leggi það til. En þarna sjáum við að þetta eru tölur sem skipta máli, skipta máli fyrir samfélagið. Og okkur ber í rauninni skylda til þess að taka svona ákvarðanir, það er ekki eftir neinu að bíða, flotinn er klár, tækin eru til, (Forseti hringir.) og þetta er ákvörðun sem hægt er að taka strax í dag.