138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

aukning aflaheimilda.

[14:54]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég held hér á riti Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem heitir Hafið bláa hafið, riti sem hefur að geyma áherslur og tillögur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í sjávarútvegsmálum. Í þessa stefnumótunarvinnu hefur verið lögð ærin vinna af okkur félagsmönnum í VG og við höfum jafnframt kallað til fjölda sérfræðinga. Þessi vinna var unnin frá vori 2007 og lögð fram í mars 2009, fyrir kosningar, og samþykkt á landsfundi. Þarna förum við yfir stöðu fiskveiða á heimsvísu — Ísland og svæðasamvinna á Norðaustur-Atlantshafi — yfir sjálfbæra nýtingu, vistvænar veiðar, eflingu hafrannsókna, hafsbotnsrannsóknir, vistkerfisstjórnun, orkusparnað í sjávarútvegi og svo margt fleira sem við verðum að taka á heildstætt. Ég vona að sú nefnd sem er nú að störfum líti til þessa.

Ég skora á hv. þingmenn að kynna sér þessa stefnu til hlítar og taka hana upp sem stefnumótun í sínum flokkum því að þessi stefna er endurnýjanleg auðlind fyrir alla. Aðalatriðið í fiskveiðistjórnarstefnunni frá A til Ö, og reyndar í allri landsmálastefnu, er að taka upp meginreglur umhverfisréttar, þ.e. um sjálfbæra þróun, taka ekki af höfuðstólnum, vinna ekki eins og við unnum í efnahagslífinu árin fyrir hrunið. Við eigum líka að taka upp meginreglu umhverfisréttar um varúð, að leyfa náttúrunni að njóta vafans.

Umræðan er gagnleg, en förum varlega umfram allt, sígandi lukka er best. Við verðum að taka ákvarðanir um aukningu aflaheimilda út frá þeim meginreglum sem ég talaði um og við verðum líka að treysta á afar færa vísindamenn okkar hjá Hafrannsóknastofnun Íslands og þeir verða líka að vinna í nánu samráði við sjómenn. Á grundvelli þess sem ég hef sagt tökum við síðan ákvörðun um hugsanlega aukningu aflaheimilda.