138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

aukning aflaheimilda.

[14:58]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Mig langar til þess að nota minn takmarkaða tíma í þessari mjög svo þörfu umræðu til þess að rifja upp skýrslu sem tveir nemar, Þórður Már Jónsson og Finnbogi Vikar, við Háskólann á Bifröst birtu síðastliðið sumar. Hún sýndi að 50% heimild til að leigja frá sér aflaheimildir skapar mikla vannýtingu á vissum tegundum nytjastofna, þar sem það er innbyggður hvati í núverandi kerfi til að sitja á ódýrari tegundum í leigu og leigja frá sér hinar dýrari tegundir. Það verður til þess að mörg þúsund tonn falla niður ónýtt árlega, margir milljarðar tapast úr þjóðarframleiðslunni þar sem engin atvinna skapast vegna vannýtingar og byggðirnar í landinu líða fyrir þetta vegna hráefnisskorts til verksmiðja.

Þá kom það jafnframt fram í þessari mjög svo vönduðu skýrslu þeirra félaga að geymsluréttur á aflamarki frá einu ári til þess næsta væri stórgalli á kerfinu þar sem leyfilegt hlutfall geymsluréttar er 33% af úthlutuðu aflamarki. Þetta gæfi m.a. útgerðaraðilum tækifæri á því að búa til skort á aflaheimildum á leigumarkaði og jafnframt hefði það áhrif á útflutningstekjur þjóðarinnar þar sem aflaheimildirnar eru ekki fullnýttar jafnvel þótt tækifæri séu til. Þar af leiðandi getur geymsluréttur orðið til þess að væntanlegar útflutningstekjur þjóðarbúsins skila sér ekki inn í landið á ársgrundvelli þegar aflaheimildir eru fluttar yfir á næsta ár.

Ég vildi nota tækifærið til að koma þessu sjónarmiði að. Menn verða auðvitað að nýta þær aflaheimildir sem eru til staðar áður en farið er að ræða um aukningu þeirra. Öll aukning þeirra, þó að menn geti vissulega tekið undir að hún er eftirsóknarverð, verður að byggja á vísindalegum grunni.

Hitt vil ég líka taka fram að það er nauðsynlegt að halda því til haga vegna minni samdráttar og minna atvinnuleysis, lægra framlags til nýju bankanna og lægri vaxtagjalda en reiknað var með, eins og fram kom hér í síðustu viku, að aðlögunarþörf ríkissjóðs minnkar um 20 milljarða á næsta ári, sem er fagnaðarefni fyrir heimilin í landinu og ekki síst fyrir atvinnulífið.