138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

lax- og silungsveiði.

165. mál
[15:06]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þingskjali 184. Þar er um að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum.

Með frumvarpi þessu er gerð tillaga um tvær minni háttar breytingar á lögum um lax- og silungsveiði. Annars vegar er lagt til að kveðið verði á um atkvæðisrétt eigenda eyðijarða á fundum veiðifélaga en fyrir mistök féll sá réttur niður við setningu gildandi lax- og silungsveiðilaga frá árinu 2006. Hins vegar er lagt til að kveðið verði á um refsingu vegna þeirrar háttsemi að hefja framkvæmdir í eða við veiðivatn sem geta haft áhrif á fiskgengd þess, afkomu fiskstofna eða aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti án þess að leyfis til framkvæmdar hafi verið aflað hjá Fiskistofu samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laganna. Sjálfsagt er að slík framkoma verði látin varða refsingu.

Þetta eru tvö einföld atriði, frú forseti, en þó er mjög mikilvægt að þau komist inn í lögin sem voru samþykkt árið 2006. Ég vil að öðru leyti vísa til þeirra athugasemda sem fylgja frumvarpinu og fylgiskjals með því sem hefur að geyma kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins. Þar segir að verði frumvarp þetta óbreytt að lögum verði ekki séð að það muni hafa í för með sér aukinn kostnað eða útgjöld fyrir ríkissjóð enda er fyrst og fremst um tilteknar leiðréttingar á gildandi lögum að ræða.