138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

lax- og silungsveiði.

165. mál
[15:12]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka undirtektir hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar í þessu máli enda er honum málið skylt. Þannig er að þegar lög um lax- og silungsveiði voru sett árið 2006 var ég í þáverandi landbúnaðarnefnd sem hafði málið til umfjöllunar og hv. þingmaður var ráðherra. Ég tek undir að þessi lög hafi verið vel unnin og vil segja að vel hefur tekist til við að standa vörð um félagsskap veiðifélaga þannig að hann geti starfað og axlað ábyrgð á félagslegan hátt. Hart hefur verið sótt að þessum samtökum þegar aðilar sem höfðu keypt upp stóran hluta af ám og vötnum komu síðan og vildu fá hlutfallslegan atkvæðisrétt í þeim efnum. Það er mjög mikilvægt að um þessa dýrmætu náttúruauðlind okkar sem fólgin er í fiskiám og vötnum sé sem best sátt og sterk félagsleg umgjörð og ég tel að svo sé. Þökk sé þeim sem þar eiga hlut að máli.

Að þessari umræðu lokinni óska ég eftir því að þetta mál gangi til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og fái þar greiða og góða umræðu og afgreiðslu.