138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

innflutningur dýra.

166. mál
[15:17]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þó að þetta frumvarp láti í sjálfu sér ekki mjög mikið yfir sér er engin spurning um að það getur haft talsverð áhrif og þetta mál varðar mjög mikla hagsmuni sem geta verið og eru hagsmunir svínaræktenda í landinu. Við skulum ekki gleyma því að svínaræktendur eru mjög mikilvægir framleiðendur á kjöti hér á landi og svínakjötsframleiðsla hefur jafnan farið vaxandi ár frá ári nú síðustu árin. Í athugasemdum við þetta frumvarp er vakin athygli á því að svín hafi verið hér haldin frá landnámstíð fram til ársins 1600, að því er talið er, og ég vil enn og aftur vekja athygli á þeim ágætu athugasemdum sem fylgja bæði þessu frumvarpi og því sem við ræddum áðan þar sem sagan er rakin ítarlega og varpað er ljósi á ýmsa hluti sem ég held að blasi kannski ekki við hverjum sem er við fyrstu sýn.

Það mál sem hér um ræðir á sér talsvert langan aðdraganda. Eins og menn þekkja kannski er það svo að til þess að geta stundað eðlilega og nauðsynlega kynbótastarfsemi í svínarækt í landinu eru flutt hingað til lands lifandi dýr sem eru, að ég hygg, frá Noregi. Þau hafa verið flutt í einangrunarstöðina í Hrísey og geymd þar um nokkurn tíma til þess að tryggja eðlilegar búfjárvarnir og koma í veg fyrir sjúkdómahættu. Að því búnu eru svínin flutt til viðkomandi búa og svínabændur hafa vakið athygli á því að þetta fyrirkomulag sé þeim mjög dýrt. Þeir hafa talið að hægt væri, án þess að valda neinni smithættu, að koma að þessum málum með öðrum og hagfelldari hætti. Þess vegna ræddu svínabændur það við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og mig sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Enn fremur komu þeir að máli við þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd með ósk um að gerðar yrðu breytingar á lögum um innflutning dýra til þess að auðvelda innflutning á erfðaefni til landsins svo draga mætti úr kostnaði án þess að það ylli neinni sjúkdómahættu.

Þeirra upphaflega ósk var sú að heimilað yrði að flytja inn ófrosið sæði beint á býli. Valin yrðu út býli sem nytu trausts í þeim efnum þannig að alls öryggis væri gætt og auðvitað yrðu líka valdir þeir aðilar frá Noregi, sem um væri að ræða, af kostgæfni til að tryggja allt þetta og um leið að reyna að draga úr kostnaði.

Þetta eru hins vegar auðvitað mjög viðkvæm mál eins og við þekkjum öll, við þekkjum umræðuna sem hefur verið um innflutning á nýjum stofnum, t.d. nýju kúakyni sem hefur verið oft til umræðu bæði hér í þinginu og utan þingsins. Við þekkjum að innflutningur af þessu tagi er afar viðkvæmt mál og ég tek undir að það þarf að fara af mjög mikilli gætni með þessa hluti. Þrátt fyrir að mér væri kunnugt um að í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd á sínum tíma væri mikill vilji til þess að bregðast jákvætt við þessari ábendingu svínaræktenda á þeim tíma varð það niðurstaða mín sem ráðherra að reyna að vinna þetta mál eins faglega og hægt væri. Þess vegna ákvað ég að setja á laggirnar nefnd sem skipuð var, eins og hér kemur fram, þremur mönnum, þeim Halldóri Runólfssyni yfirdýralækni, Vilhjálmi Svanssyni, dýralækni og sérfræðingi í veirufræði á Keldum, og Þorsteini Ólafssyni, dýralækni hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, sem nú er sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun, en allir þessir menn eru mjög fróðir á þessu sviði. Þeir fóru, eins og fram kemur í þessum athugasemdum, í ferð til Noregs til þess að kynna sér aðstæður og skoðuðu öll tiltæk gögn. Niðurstaða þeirra var sú, eins og fram kemur í þessum athugasemdum, að hægt væri að fara tvær leiðir sem eru tilgreindar hér í athugasemdunum og seinni leiðin er í raun og veru stofninn að því frumvarpi sem við ræðum hér.

Ég tel að það sé engin spurning um að þetta er a.m.k. skref í þá átt sem svínabændur lögðu til að farin væri. Hér er greinilega verið að reyna að feta mjög varfærna slóð og ég geri ekki athugasemdir við það nema síður sé. Hins vegar er það alveg ljóst mál að miðað við þær upphaflegu óskir sem komu fram frá svínabændum sem ég nefndi hér áðan er ekki verið að ganga alveg til móts við þau sjónarmið sem þá voru uppi. Þessi mál voru líka rædd á þeim forsendum hvort skynsamlegt væri að flytja inn frosið svínasæði eða djúpfryst svínasæði, eins og hérna er gert ráð fyrir. Mig rekur minni til þess að svínabændur á þeim tíma höfðu nokkrar áhyggjur af því að sú leið gæti verið bæði torsótt og nokkuð dýr fyrir bændur. Því vildi ég spyrja hæstv. ráðherra að því hvort kostnaður við þetta hafi verið metinn, ekki frá sjónarhóli ríkisins heldur fyrir bændur, hvort þetta muni leiða til þess að kostnaður við svínarækt muni minnka eða hvernig hann muni þróast að öðru leyti. Við þurfum líka að hafa tiltækar upplýsingar um hvernig að þessu máli verður staðið að öðru leyti, hvernig að því verður staðið gagnvart samskiptum okkar við Norðmenn. Í athugasemdunum er greinilega verið að tala um innflutning frá tiltekinni einangrunarsæðingarstöð í Noregi, Norsvin í Hamri, sem er sérstaklega nefnd hér í athugasemdunum. Við þurfum því að hafa nákvæmar upplýsingar um hvernig að þessu máli verður staðið og þær munum við væntanlega fá í meðhöndlun sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar þegar að því kemur.

Að öðru leyti ætla ég ekki að hafa mörg orð um þetta. Við vitum að það skiptir mjög miklu máli í því erfiða rekstrarumhverfi sem núna er í kjötframleiðslu í landinu að við leitum allra leiða til að reyna að lækka kostnað. Ef það er þannig, eins og svínabændur nefndu, og ég hygg að þeir hafi gert það með fullgildum rökum, að hægt sé að lækka kostnað í svínarækt með því að geta stundað skipulagðari kynbótastarfsemi og gera þetta með ódýrari hætti, skiptir það mjög miklu máli.

Auðvitað er enginn að tala um að gera það á kostnað þeirra sjúkdómavarna sem við viljum hafa í heiðri þegar kemur að landbúnaði okkar. Þarna geta verið heilmiklir hagsmunir á ferðinni sem við þurfum því að fara mjög rækilega yfir í nefndinni þegar að þessu kemur, þó að ég sé ekki að boða að það verði óþarfa tafir í þessum efnum, en þetta er mál af því tagi sem við þurfum að skilja sem allra best til þess að geta metið hvort sú leið sem sérfræðingarnir þrír hafa lagt til sé sú eina rétta, sem vel má vera. Við þurfum a.m.k. að reyna að leggja okkar sjálfstæða mat á það eftir föngum í nefndinni.

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta mál er komið fram. Ég tel mjög mikilvægt að hreyfa við þessu. Það voru mikil og gild rök sem svínabændur fluttu á sínum tíma með því að gera breytingar á því fyrirkomulagi sem hefur verið við lýði, þ.e. innflutning á lífdýrunum. Ég er sannfærður um að það var rétt mat á þeim tíma og er þess enn fullviss. Það má ekki fara í þessar breytingar nema að mjög vel yfirlögðu ráði og þá með því að leita til okkar færustu sérfræðinga sem ég hygg að hér hafi verið gert með þessum hætti. Þetta frumvarp er afraksturinn af því starfi.