138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

innflutningur dýra.

166. mál
[15:33]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög góð umræða, bæði lærð og skemmtileg. Þetta er það sem við fjöllum um, heimild til að flytja inn undir sérstökum skilyrðum djúpfryst svínasæði til kynbóta og til að styrkja samkeppnishæfni svínastofnsins hér á landi.

Ég vil einnig minna á að ég hef skipað starfshóp sem á að kanna hvort ekki sé hægt að auka hagkvæmni stofnsins enn frekar með að íslenskt kornfóður verði notað í auknum mæli til svínakjötsframleiðslu hér á landi. Að mörgu er að hyggja en það er eitt sem ég vildi vekja athygli á í þessum ágætu tillögum okkar. Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson vísaði til forvinnu sinnar í þessu máli en ég veit ekki hvort hæstv. utanríkisráðherra tók eftir því sem stendur í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Nefndin gerir tvær tillögur um mögulegar aðferðir við innflutning á svínasæði.

Tillaga nr. 1 felur í sér að heimild verði veitt fyrir innflutningi á fersku svínasæði frá Norsvin í Noregi sem fari eingöngu til notkunar á sérstöku einangrunarbúi (einangrunarstöð) sem rekið verði af Svínaræktarfélagi Íslands, eða öðrum þar til bærum aðila. Sú tillaga felur í sér að ekki þarf að breyta lögum enda yrði framkvæmdin, rétt eins og nú, innan heimilda 13. gr. laga um innflutning dýra.

Tillaga nr. 2 felur í sér að heimild verði veitt fyrir innflutningi á frosnu svínasæði frá Norsvin í Noregi, sem geti farið beint inn á svínabú hér á landi …“

Ég vek athygli á að þarna er þetta algerlega bundið við Noreg og ég var spurður að því í meðhöndlun frumvarpsins hvers vegna ekki væri leyfður innflutningur á sæði frá öðrum löndum. Þá varð ég bara að svara því einu sem mér fundust vera nægileg rök fyrir, að Noregur er ekki í Evrópusambandinu.