138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

innflutningur dýra.

166. mál
[15:37]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Bara til að hafa það skýrt, Félag svínabænda er mjög sátt við þessa tilhögun og mér finnst líka fagnaðarefni að þetta verði gert á félagslegum grunni hvað þá varðar sem ræktendur. Það verður að sjálfsögðu að fara þarna að með mikilli varúð því að vissulega er verið að taka nokkra áhættu. En með því að gera það með þeim hætti, að bestu manna yfirsýn, að lágmarka sjúkdómahættuna, er þetta lagt til.

Varðandi síðan innlegg hæstv. utanríkisráðherra get ég staðfest að innlegg hans á sviði landbúnaðar hefur nýst vel og ég þakka fyrir og get rifjað upp í bæði stuttu og löngu máli góðan stuðning hans við mörg góð landbúnaðarmál og er líka gott að heyra hann leggja þessu máli lið. (EKG: Á það við flokkinn hans?) Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson grípur fram í, flokkur hæstv. utanríkisráðherra er ágætur, en ég var fyrst og fremst að tala um hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson sem leggur oft, og það ég man best, mjög gott til landbúnaðarmála, svo því sé rækilega haldið til haga. (Gripið fram í.)