138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

Íslandsstofa.

158. mál
[16:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Atvinnulífið hefur meiri hluta í stjórn Íslandsstofu samkvæmt þessu frumvarpi. Í frumvarpinu er líka gert ráð fyrir því að settar verði upp sérstakar verkefnisstjórnir fyrir einstakar greinar atvinnulífsins samkvæmt óskum þeirra sem þar starfa, þannig að bergmálið af óskum þeirra mun auðvitað koma býsna sterkt inn í þá stefnu sem framkvæmd verður af þessari Íslandsstofu.

Einnig eru þarna fulltrúar ýmissa ráðuneyta þannig að samlegðaráhrifin af öllu þessu ættu að geta gert það að verkum að skilaboðin frá Íslandi sem eiga að miða að því að bæta ímynd landsins og orðspor verði miklu hnitmiðaðri, samhæfðari og sterkari. Þetta er það sem ég get sagt á einni mínútu.