138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

Íslandsstofa.

158. mál
[16:41]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna því frumvarpi sem hér er fram komið um Íslandsstofu, sem er á margan hátt gott en þó eru í því ýmis atriði sem þarf að laga að mínu mati og skoða frekar. Ég ætla að fara yfir málið og það sem mér finnst betur mega fara og eins það sem gott er.

Ég held að mjög mikilvægt sé núna þegar við erum að reisa landið við á ný úr rústum þeim sem skildar voru eftir í október í fyrra að það sé gert með fjölbreyttu atvinnulífi og Íslandsstofa mun gegna þar lykilhlutverki ef vel tekst til. Ég tel hins vegar að skerpa þurfi á ýmsum atriðum og að það sé ýmislegt í þessu frumvarpi sem mætti vera aðeins öðruvísi háttað. Mér finnst persónulega að ferðaþjónustunni sé ekki gert nægilega hátt undir höfði, auk þess sem ég rak augun í það sama og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir benti á áðan, að það vantar inn í það mun sterkari og ríkari tengingu við matvælaframleiðsluna og matvælaiðnaðinn á Íslandi og þá nefni ég landbúnaðinn og sjávarútveginn. Það vakti furðu mína að sjá að hvergi var minnst á sjávarútveg í 2. gr. Ég ætla því fara hér yfir 2. gr. þar sem talað er um hlutverk Íslandsstofu.

Í fyrsta lagi þar sem er verið að samræma stefnu er tenging stjórnvalda við hagsmunaaðila. Þarna er um gott og gilt atriði að ræða og ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að tengingin þarna á milli sé góð og að kraftarnir á hinum endanum séu samhæfðir og tengdir meira saman.

Í öðru lagi á Íslandsstofa að veita fyrirtækjum alhliða faglega aðstoð, fræðslu og ráðgjöf. Þarna er talað um að þeir sem undir Íslandsstofu falla geti leitað í þekkingar- og reynslubrunn, því að þar verður mikil reynsla og mikil þekking sem myndast sem þarf að miðla með réttum hætti.

Ég vil nefna hérna lítið dæmi sem ég þekki ágætlega til og ég held að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hafi minnst á áðan og taldi vera umdeilt, sem er átak við útflutning á landbúnaðarvörum. Ég nefni þar verkefni í útflutningi á landbúnaðarafurðum til Whole Foods í Bandaríkjunum sem verið hefur í gangi í nokkur ár og var gagnrýnt töluvert, ekki hvað síst af framleiðendum. En eftir að hafa fylgst með þessu verkefni þó að það hafi farið hægt af stað, þá er mjög merkilegt að fylgjast með því. Þarna var byrjað á útflutningi á dilkakjöti. Það fór mjög hægt af stað en verðin voru góð. Fyrst var þessu komið inn í eina búð og menn voru alltaf að reka sig á sömu vandamálin aftur og aftur. Síðan fór þetta að þróast og nú er í rauninni minnsti hlutinn af því sem flutt er þarna í gegn dilkakjöt. Það er verið að flytja út skyr, smjör, það er komið smjör í allar verslanir Whole Foods, íslenskt smjör, bleikja er að fara þarna í gegn, þetta, íslensk bleikja er að fara í verslanir. Þarna er gott dæmi um það hvernig menn byrja í rauninni á útflutningi með því að flytja út einhverja ákveðna vöru en síðan þróast þetta yfir í aðrar vörur. Og það er einmitt svona verkefni sem er mikilvægt að Íslandsstofa haldi utan um því að þarna skapast mikil þekking og mikil reynsla og aðrir geta síðan gengið í þann reynslubrunn.

Í þriðja lagi er hlutverk Íslandsstofu að laða til landsins erlenda ferðamenn með samræmdri stefnumiðaðri kynningu á Íslandi sem áfangastað. Þarna er fjallað um ferðaþjónustuna og ég held að það sem ferðamenn eru að sækja í þegar þeir koma hingað til lands sé matvælamenningin, sögulega menningin, sögutengingin, og svo náttúran. Ég sakna þess í frumvarpinu að sjá ekki meiri tengingu við umhverfismálin, að umhverfisráðherra geti skipað þarna fulltrúa og ég ætla að koma betur inn á það á eftir hvernig skipað er í stjórn Íslandsstofu. Mér finnst vanta verulega á að náttúrunni sé gert hærra undir höfði og að umhverfisráðuneytið og það sem tengist umhverfi og náttúruvernd komi sterkar inn í frumvarpið.

Þarna kemur aftur að því sem ég nefndi áðan um matvælin, þarna vantar tenginguna við sjávarútveginn og landbúnaðinn, matarmenninguna, við verkefni eins og Beint frá býli , við ferðaþjónustuna. Að vísu er komið inn á menninguna í e-lið í kaflanum um hlutverk og því læt ég hana vera nú.

Í fjórða lagi er það hlutverk Íslandsstofu að laða til landsins erlenda fjárfestingu, sem er vissulega mikilvægt, en áhyggjur mínar af frumvarpinu snúast um ferðaþjónustuna, fjölbreytileikann, og það sem ég hefði fyrst og fremst viljað sjá í frumvarpinu er þessi fjölbreytileiki og annað því tengt. Ég hef áhyggjur af að það muni að einhverju leyti lúta í lægra haldi fyrir því sem stendur í þessum lið um hlutverk Íslandsstofu, sem er að laða til landsins erlenda fjárfestingu. Ég hef áhyggjur af því að púðrið muni í of miklum mæli fara í það hjá Íslandsstofu að reyna að laða til landsins stórfyrirtæki á áliðnaði og öðru því um líku en minni kraftur verði settur í smærri fjölbreyttari atvinnugreinar sem styrkja byggðina mun betur úti um land og eru alla jafna mun arðbærari.

Í fimmta lagi skal Íslandsstofa styðja við kynningu á íslenskri menningu erlendis sem tengingu við ferðaþjónustu. Þetta hefði ég viljað að væri bara einn af þrem liðum undir ferðaþjónustu og að matvælunum og náttúrunni yrði gert jafnhátt undir höfði og kæmu þarna sem tveir nýir liðir á eftir.

Það er fleira sem ég hef ákveðnar athugasemdir við og ég bendi aftur á þann lið þar sem talað er um erlenda fjárfestingu. Ástæða þess að ég hef athugasemdir og áhyggjur af því að fjölbreytileikanum, ferðaþjónustunni og hreinni náttúru og þeim möguleikum sem í því er fólgið, verði ekki gert nægilega hátt undir höfði er einmitt hvernig skipað er í stjórn Íslandsstofu en stjórnina skipa níu menn, valdir til þriggja ára í senn. Utanríkisráðherra skipar fimm stjórnarmenn eftir tilnefningu frá Samtökum atvinnulífsins. Þrátt fyrir ágæti þeirra samtaka hafa þau að mínu viti ekki í málflutningi sínum lagt mjög ríka áherslu á fjölbreytileika, á náttúru landsins, á ferðaþjónustu úti í hinum dreifðu byggðum, á lítil sprotafyrirtæki, heldur lagt meiri áherslu á það sem fellur undir d-lið í hlutverkum Íslandsstofu. Þessu held ég að þurfi að gera hærra undir höfði og að umhverfisráðuneytið fái fulltrúa í stjórninni og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið eða það ráðuneyti sem fer með umhverfismál og matvælamál eigi einnig fulltrúa og þessi stjórnarskipun verði skoðað vel. Það er alla vega ekki ásættanlegt í mínum huga að Samtök atvinnulífsins séu með fimm menn af níu í stjórn Íslandsstofu þrátt fyrir að utanríkisráðherra skipi þá stjórnarmenn.

Ég held að utanríkismálanefnd þurfi að skoða þetta frumvarp vel og í mínum huga er þetta jákvætt. Ef vel tekst til getur þetta skilað gríðarlega miklu en ég held að gera þurfi ákveðnar breytingar á frumvarpinu og leggjast í það að reyna að tryggja eftir bestu getu að þarna verði fjölbreytileikinn hafður að leiðarljósi, ferðaþjónustunni verði gert hátt undir höfði svo og náttúru landsins. Þetta þarf að stórefla í Íslandsstofu og tengingu við umhverfismálin og þá held ég að þetta frumvarp geti orðið mjög gott. Ég segi aftur og enn að ég get stutt það en ég vil sjá á því ákveðnar breytingar sem ég hygg að utanríkismálanefnd muni taka til umfjöllunar.