138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

Íslandsstofa.

158. mál
[17:02]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi get ég nú ekki séð að hvernig ég fór fram úr í morgun geti haft áhrif á það hvað stendur í þessu frumvarpi, svo það sé nú sagt hér. Málefnalegt var þetta innlegg hæstv. utanríkisráðherra.

Ég finn þessu frumvarpi allt til foráttu. Mér er slétt sama hvaðan það er runnið, hvort það er úr ranni atvinnulífsins eða fyrrverandi forsætisráðherra eða hvaðan það er komið. Mér er ekkert skylt, frú forseti, eins og virðist vera einhvers staðar annars staðar, að vera málinu sammála ef sjálfstæðismenn hafa komið að því einhvers staðar. Það er bara einfaldlega ekki þannig, frú forseti, og hvort sem hæstv. utanríkisráðherra finnst það vera betur eða verr er ég bara ósátt við frumvarpið og ég finn því allt til foráttu. Mér finnst þetta miðstýring og ég þoli ekki miðstýringu. Ég ítreka, frú forseti, að mér er slétt sama þótt sjálfstæðismenn hafi komið að gerð frumvarpsins. Það kemur fram núna og er til umræðu núna. Það var ekki til umræðu fyrir tveimur árum, frú forseti, það er til umræðu núna. Af því að hæstv. utanríkisráðherra er oftar en ekki svo málefnalegur að ýja að því að fólk lesi ekki það sem það er að tala um tek ég fram að ég hef lesið frumvarpið. Ég var eingöngu að vísa til þess, frú forseti, hvað stendur í 5. gr. um hvaða tekjur væru áætlaðar fyrir þessa stofu og þar stóð markaðsgjald. Ég tók líka fram framlög í fjárlögum, þóknun fyrir veitta þjónustu, þjónustusamning, stofnanir og samtök.

Ég er ósátt við frumvarpið. Ég fór ekki í ræðu til að segja neitt jákvætt um það af því ég er ósátt við það. Og ef ég er ósátt við það tíunda ég það sem ég er ósátt við. Ég er bara ekki hlynnt neinu sem stendur hérna.