138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

Íslandsstofa.

158. mál
[17:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sem ferðamálaráðherra tók ég ákvörðun um að leggja niður þær tvær skrifstofur sem hv. þingmaður nefndi. Ég tók ekki ákvörðun varðandi New York. Hv. þingmaður gæti auðvitað innt hæstv. ferðamálaráðherra eftir því hvað ætlað er. Ég komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að starfið sem lyti að Bandaríkjunum væri frábærlega unnið í samvinnu þeirra sem þar eru og verkefnisins Iceland Naturally. Það er verkefni sem að því er varðar Bandaríkin hefur gengið ákaflega vel. Við höfum mælingar á því. Það hófst líka fyrr. Og eins og hv. þingmenn vita er varið til þess töluverðum peningum á hverju ári. Ég velti þessu máli fyrir mér á sínum tíma en ég komst ekki að þeirri niðurstöðu sem m.a. kom fram í skýrslunni um Promote Iceland. En það er líka rétt að það er margt í þeirri skýrslu sem ég var ósammála og ég vek eftirtekt á því að sú skýrsla kallaði t.d. á andmæli af hálfu Háskóla Íslands vegna þess að menn töldu að greiningin á því með hvaða hætti Íslendingar upplifðu sjálfa sig og hvernig ímynd landsins væri út á við byggði á nokkuð gamaldags skoðunum. Það var niðurstaða Háskóla Íslands og merkilegs prófessors í sagnfræði sem skrifaði um þetta lærðar greinar og ég verð að taka það fram að eftir að hafa farið í gegnum þá röksemdafærslu var ég honum bara algjörlega sammála.

Hitt er rétt hjá hv. þingmanni að uppruni þessa máls, eins og ég tel að ég hafi getið nokkrum sinnum hér í dag, er úr þessari vinnu sem á sínum tíma var nefnd hinu engilsaxneska heiti Promote Iceland. Á vegferðinni frá þeim upprunastað hefur þetta breyst nokkuð en meginkjarni hugmyndarinnar er þaðan.