138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

samningsveð.

7. mál
[17:50]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Mig langar að biðja forláts fyrir fram, ég á örugglega eftir að segja „frú forseti“ nokkrum sinnum því að ég er orðinn svo vanur því, en það er ágætt að vita til þess að nú höfum við herra í forsetastóli í fyrsta skipti síðan ég hóf störf á þingi. Það er ágætistilbreyting.

Hv. þm. Lilja Mósesdóttir hjá Vinstri grænum var að mæla fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um samningsveð. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál og mikilvægt að það fái framgang hér á þinginu og í þeirri nefnd sem um það fjallar, að það nái hér í gegn og helst eins fljótt og kostur er. Við búum við fordæmalausar aðstæður í íslensku efnahagslífi þar sem hús fólks eru orðin miklu verðminni en þau lán sem hvíla á þeim og fólk losnar ekki frá þeim. Þetta frumvarp gerir það að verkum að eingöngu verður hægt að gera kröfu í það sem lagt er að veði. Það verður ekki lengur hægt að gera kröfu að auki í barnarúmið, hjónarúmið, málverkin, brauðristina og lausamunina eins og reglurnar eru í dag, það verður eingöngu hægt að gera kröfu í veðið en ekki í manneskjuna sjálfa. Kerfið sem við búum við í dag er mannskemmandi, það er vont kerfi og það þarf að leita allra leiða til að lagfæra það. Þetta frumvarp er einfaldlega hluti af þeirri leið sem verið er að fara með ýmsum úrræðum til hagsbóta fyrir almenning, þótt að mínu mati séu margar hverjar ekki mikils virði skipta þær samt einhverju máli.

Það sem skiptir líka mjög miklu máli hér, herra forseti, er að ekki er lengur hægt að elta fólk út yfir gröf og dauða með einhverjar kröfur sem það átti ekki fyrir. Ég hitti fólk reglulega sem talar við mig um að verið sé að endurvekja á það kröfur, það hefur kannski tapað öllu sínu og skuldar og er komið á vanskilaskrá og eftir 3–4 ár heldur það að kannski sé séns fyrir það að ná sér á strik aftur og fær sér þá kannski vinnu sem er ekki lengur svört vinna en þá eru kröfurnar á það endurvaktar, það lendir á sama stað og á sér ekki viðreisnar von. Þetta er ömurlegt kerfi. Almenningur býr við það fyrirkomulag að geta ekki skipt um kennitölu eins og braskararnir gera, þeir setja allar sínar eignir undir nýjar kennitölur og skipta þeim svo út og suður eftir því sem þeim hentar, halda eignunum, láta skuldirnar sitja eftir og lifa kóngalífi á meðan venjulegt fólk sem vinnur almenna launavinnu, reynir að koma sér þaki yfir höfuðið og á varla til hnífs og skeiðar lendir á skuldaklafa jafnvel hálfa ævina. Þetta er úrræði fyrir fólk sem margt er búið að gera sitt besta, fólk sem þarf að fá raunverulegt tækifæri til að byrja upp á nýtt. Eftir það sem á undan er gengið í íslensku samfélagi undanfarið ár veitir ekki af stórfelldum aðgerðum til að gera fólki kleift að byrja upp á nýtt. (BirgJ: Heyr, heyr.)

Það eru tveir klukkutímar síðan ég talaði við fasteignasala — það er búið að vera frekar lítið að gera hjá honum — sem sagði í mín eyru að miðað við óbreytt ástand muni tugþúsundir fjölskyldna verða gjaldþrota á næsta ári og að hér verði kreppa af þvílíkum kalíber að samfélagið muni að öllum líkindum aldrei ná sér upp úr henni vegna þess að fólk sem stendur frammi fyrir því að missa allt sitt og vera elt árum saman með einhverjar kröfur sem það á ekki fyrir mun einfaldlega fara. Það mun fara í stórum stíl og það verður blóðtaka sem verður ekki hægt að bæta.

Þetta frumvarp býður upp á þann valmöguleika sem er brýn þörf á, að fólk sem vill einfaldlega losna og byrja upp á nýtt, fólk sem passar ekki vel inn í greiðslujöfnun, passar ekki vel inn í sértæka skuldaaðlögun, passar ekki vel inn í öll þau úrræði sem til eru eða kýs einfaldlega að standa ekki lengur í því basli sem það er að koma sér þaki yfir höfuðið á Íslandi og vill byrja upp á nýtt á einhverjum öðrum forsendum fær val um það. Þetta er hluti af því sem margir kalla frelsi einstaklingsins, að menn fá þá séns til að byrja upp á nýtt. Þetta ætti að hugnast þeim sem aðhyllast slíkt frelsi. Hér eru ekki margir þingmenn úr öðrum flokkum, einn úr Sjálfstæðisflokki og enginn úr Samfylkingunni. Ég vona að — jú, það er einn úr Framsóknarflokki líka — það sé ekki til merkis um áhugaleysið gagnvart þessu frumvarpi því að þetta er um margt miklu mikilvægara en mörg þau úrræði sem hafa verið flutt á þessu þingi hingað til hvað varðar heimilin, mörg hver sem ég tel að séu kannski fyrst og fremst einhvers konar sýndarmennska þó að þau geri eitthvert gagn. Þetta frumvarp hv. þm. Lilju Mósesdóttur gerir miklu meira gagn en svo. Ég vona sannarlega að meiri hluti þingmanna taki undir þetta og ýti vel á eftir því að þessu verði fylgt í gegnum þingið.