138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

samningsveð.

7. mál
[17:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég óska forseta til hamingju með að vera sestur þarna, ég man ekki eftir að hafa séð hann fyrr á þessu þingi í þessu sæti.

Það frumvarp sem hér er lagt fram og hv. þm. Lilja Mósesdóttir mælti fyrir er mjög þarft og gott að fá til umræðu í þinginu. Vonandi munum við hraða umræðu um það og vanda til verka því að það er kominn tími til að Alþingi sendi skuldurum, sem ég held að séu flestir Íslendingar í dag sem eiga fasteignalán, skilaboð um að það sé nú ekki — ja, það er best að gæta orða sinna núna, það þurfi ekki að vera dómsdagur þó að menn taki lán fyrir húsnæði og forsendubrestur verði, að ekki verði gengið að öllum mögulegum eignum manna, heldur verði einhver áhætta eftir hjá þeim sem veitir lánið. Ég held að það sé stóra málið í þessu. Hingað til hafa lánveitendur verið með, eins og oft hefur verið sagt, belti og axlabönd á öllu sem þeir gera, nú er tími til kominn að horfa öðruvísi á þessa þætti.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram hjá öðrum þingmönnum, þetta er ekki síðra og jafnvel enn þá þarfara mál en mörg sem lögð hafa verið fram á hinu háa Alþingi. Ég hef sjálfur haft ákveðnar efasemdir um hið nýsamþykkta frumvarp um aðgerðir í þágu skuldsettra heimila sem hér var samþykkt í miklum flýti. Þetta er jákvætt, það er rétt, en það þarf svo miklu meira til. Þetta er eitt skref í þá átt að koma á sanngjarnan hátt til móts við skuldara, færa áhættuna að einhverju leyti yfir til þeirra sem veita lánin. Ég tel að það sé löngu kominn tími til þess og vona að málið fái vandaða og hraða meðferð í þinginu.