138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

samningsveð.

7. mál
[18:01]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Herra forseti. Velkominn í forsetastól. Ég segi eins og hv. þm. Þór Saari: Ég vona að þú fyrirgefir mér, hæstv. forseti, ef ég segi óvart frú, það er búið að temja mann svo vel.

Þetta frumvarp er stórt skref í því að tryggja almenn réttindi skuldara. Ætli við eigum ekki enn eitt heimsmetið þegar kemur að bágri stöðu lántakenda. Sú staða verður að einhverju leyti lagfærð ef frumvarpið nær fram að ganga. Sumir hafa kallað það lyklafrumvarpið því ef það nær fram að ganga geta þeir sem ekki geta lengur greitt af lánum sínum einfaldlega skilað lyklunum sínum og fjármagnseigendur geta ekki gert neina kröfu í annað sem skuldarinn á en húsið, þ.e. veðið í húsinu, og hitt atriðið er að ef húsið dugar ekki fyrir allri kröfunni þá fellur krafan niður.

Næsta réttlætismál á dagskrá er að komið verði á fót embætti umboðsmanns skuldara til að tryggja réttindi þeirra sem skulda sem er sennilega nánast hver einasti landsmaður. Aldrei hafa skuldamál verið eins flókin og í núverandi ástandi. Almennt er fólk ringlað og rækilega hefur verið tryggt að hver einasti blóðdropi peninga er mjólkaður úr löngu tæmdum sjóðum. Ég skora á allan þingheim að tryggja að þetta frumvarp verði að lögum. Það er kominn tími til að réttarstaða þeirra sem skulda sé lagfærð.

Frumvarpið var flutt í sumar en það var svæft í nefnd og við megum til með að láta það verða að veruleika núna því að oft var þörf en nú er nauðsyn. Það hryggir mig að sjá — nú er mikið rætt um það að þingræðið sé veikt — svo fáa þingmenn í þessum sal, sem eru nákvæmlega 7, þegar verið að ræða um málefni sem nánast allir hv. þingmenn hafa talað um að skipti gríðarlega miklu máli. Ég spyr bara: Hvar er hæstv. ríkisstjórn? Hvar eru hv. þingmenn Samfylkingarinnar? Hafa þeir enga skoðun á þessu máli?