138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

samningsveð.

7. mál
[18:19]
Horfa

Flm. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka öllum þeim sem tóku til máls og lýstu yfir stuðningi við þetta frumvarp. Ég fylltist reyndar bjartsýni við að hlusta á félaga mína ræða það, en því miður eru ekki margir hér í salnum þannig að þetta er kannski ekki marktækt úrtak. Ég verð að viðurkenna að það hryggir mig að mér hafi ekki tekist að fá nokkra sjálfstæðismenn og nokkra úr hópi Samfylkingar til stuðnings við þetta frumvarp. Ég reyndi og hafði samband við einstaklinga og mun að sjálfsögðu næst hafa samband við hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur sem sýnir áhuga. Þeir þingmenn sem ég hafði samband við í báðum þessum flokkum höfðu áhyggjur af eignarréttinum og voru þar af leiðandi ekki tilbúnir til að vera meðflytjendur á frumvarpinu. Það fékk mig aðeins til að velta fyrir mér hvers konar samfélag þetta væri. Samfélag sem setti ofar öllu eignarrétt kröfuhafa í stað þess að tryggja í meira mæli einstaklingsfrelsi eða val skuldara til að velja hvernig farið er með skuldir þeirra þegar þeir ráða ekki lengur við þær. Við erum ekki að tala um að hver og einn sem hefur tekið lán með veði í fasteign sjái sér einhvern hag í því að skila inn lyklum. Þetta er fyrst og fremst ákveðinn hópur skuldara sem mun nýta sér þetta, aðrir hafa ekki hag af því. Allir þeir sem hafa greitt eitthvað niður af fasteignaláni sínu hafa hag af því að reyna að halda áfram að greiða af láninu, annars tapast það sem búið er að greiða af höfuðstólnum.

Ég held að andstöðuna við þetta frumvarp sem m.a. birtist í allsherjarnefnd í sumar í formi umsagna frá lánastofnunum og mörgum löglærðum fulltrúum megi rekja til þess að sambærileg löggjöf hefur ekki verið innleidd á Norðurlöndunum. Sambærileg löggjöf hefur verið innleidd á Spáni og í Bandaríkjunum. Íslensk löggjöf er að stórum hluta til dönsk og því þykir mjög róttækt að innleiða eitthvað sem Danir hafa ekki innleitt nú þegar, hversu jákvætt sem það kann nú að vera.

Ég tel að það sé bara ákveðin hræðsla á bak við þessa andstöðu við frumvarpið og hvet fólk, sérstaklega nefndarmenn í allsherjarnefnd, til að vera eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir talaði um, og fleiri sem hér mæltu, róttækt í því að koma til móts við þarfir fólksins í landinu.

Ég ítreka að mjög margir skuldarar hafa haft samband við mig, bæði í sumar og svo á undanförnum vikum. Um leið og þetta frumvarp kom á dagskrá Alþingis byrjaði síminn að hringja og fólk að spyrja mig hvort það væri einhver von til þess að frumvarpið færi í gegnum þingið því að það sæi enga aðra leið út úr skuldavanda sínum. Þetta var ekki bara spurning um að sjá einhverja leið út úr skuldavandanum, heldur vildi þetta fólk fá val. Það vill fá að velja hvort það heldur áfram að reyna að borga af fasteign sem það keypti á bóluverði og fékk til þess eins mikið af lánum og bankinn gat hugsað sér að dæla í þessi fasteignakaup, bankanum var jú nokk sama hvort viðkomandi gæti borgað eða ekki, hann vissi að hann gæti hvort eð er gengið að öllum eignum, ekki bara húsinu, heldur innstæðunum í bankanum, bílnum og flestu öðru sem má búa til einhver verðmæti úr. Þetta fólk, fólkið í landinu, vill fá að velja, hafa eitthvað um það að segja hvers konar úrræði það fer í gegnum. Því finnst líka mjög mikilvægt að hafa val um það hvort það haldi áfram að reyna að eignast fasteign og taka þátt í þessari séreignarstefnu sem hefur verið við lýði hér, a.m.k. svo lengi sem ég man eftir, eða hvort það fari einfaldlega á leigumarkaðinn. Margir vilja breyta um stefnu í lífinu og vilja í stað þess að streða fyrir einhverri fasteign leigja og njóta lífsins. Frumvarpið mun gefa þessu fólki eitthvert val.

Það er svolítið skrýtið að tilheyra flokki sem einstaklingar kenna oft við mikil ríkisafskipti og vera sjálf í þeirri stöðu að leggja fram frumvarp sem gengur út á það að veita einstaklingnum frelsi til að ákveða hvort hann heldur áfram að greiða af skuldum sínum eða ekki. Ég sé að eini sjálfstæðismaðurinn hér í salnum tekur undir og fagnar (Gripið fram í.) þessari yfirlýsingu um nauðsyn þess að standa vörð um einstaklingsfrelsið.

Að lokum ítreka ég að það er mikil krafa úti í samfélaginu um að þetta frumvarp fari í gegn og ég vona að áhugaleysið sem birtist m.a. í því að mjög fáir þingmenn eru í salnum sé ekki skilaboð um að þetta frumvarp muni stranda eða daga uppi í nefnd, eins og það er kallað á þingi.