138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

9. mál
[18:27]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um hagsmuni Íslands í loftslagsmálum. Það eru 24 hv. þingmenn sem flytja þessa tillögu, þ.e. allir þingmenn Framsóknarflokksins nema einn og allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Þetta mál er ekki flutt hér í fyrsta sinn, þetta er flutt núna í þriðja skipti. Við fluttum það líka á 136. og 137. þingi, sem var sumarþing, og það hefur fengið nokkra vinnslu í þinginu síðan það var flutt hér í fyrsta sinn.

Innihald þingsályktunartillögunnar er á þá leið að Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gæta ýtrustu hagsmuna Íslands í samningaviðræðum sem nú fara fram á vegum rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar en það er einmitt stefnt að því að ljúka 15. aðildarríkjaþingi samningsins í Kaupmannahöfn í desember á þessu ári, svokallað COP15. Það kemur fram í tillögugreininni að það eigi sérstaklega tryggja að efni og tilgangur ákvörðunar 7. aðildarríkjaþingsins, svokallað ákvæði nr. 14/CP.7 í rammasamningnum þar, um áhrif einstakra verkefna á útstreymi á skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar haldi gildi sínu við samningsgerðina, þ.e. hið svokallaða íslenska ákvæði, og að svigrúm Íslands til frekari nýtingar sjálfbærra orkuauðlinda á grundvelli íslenska ákvæðisins verði viðurkennt. Þetta er svona innihald ályktunarinnar og síðan er greinargerð sem færir rök fyrir þessu máli.

Ef við lítum aðeins til baka er alveg ljóst að á sínum tíma þegar samið var í Kyoto fékk Ísland +10% og það þýðir að á fyrsta skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar sem er 2008–2012 og stendur enn, máttu Íslendingar losa 10% meira af gróðurhúsalofttegundum en þeir losuðu árið 1990, sem er grunnár, og þetta er grunnár sem gildir fyrir ríkin sem voru aðilar að Kyoto-bókuninni sem eru iðnríkin, þ.e. iðnríkin tóku á sig tölusett tímasett markmið. Þróunarríkin gerðu það ekki, einungis iðnríkin. Það var talið eðlilegt að iðnríkin tækju á sig skuldbindingar en ekki þróunarríkin af því að þróunarríkin sögðu sem rétt var að iðnríkin hefðu mengað og nýtt kol og olíu til þess og náð hagvexti með því og ekki væri hægt að banna núna þróunarríkjum að gera slíkt hið sama til að ná hagvexti hjá sér. Þar eru stór ríki undir, eins og Kína og Indland og fleiri ríki sem eru geysilega fjölmenn og fátæk, þau vilja auðvitað efla sinn hagvöxt, efla velferðina hjá þegnum sínum, og vilja auðvitað geta notað þá orkugjafa sem eru helst í gangi í heiminum í dag og það eru kol og olía. Það er bara ekkert flóknara en það. Af þessu hafa menn haft nokkrar áhyggjur og núna er vaxandi vilji til þess að þróunarríkin taki líka á sig skuldbindingar og er líklegt að þau komi inn í þessar skuldbindingar, annaðhvort núna í tengslum við Kaupmannahafnarfundinn eða í framhaldinu. Það verður auðvitað ekki hægt að finna neina lausn til framtíðar nema þessir stóru þróunarríki komi inn líka sem nota mjög mikið af kolum og olíu.

Eitt iðnríki hefur skorið sig svolítið úr og það eru Bandaríkjamenn. Þeir hafa ekki viljað vera mikið með í þessum málum, því miður, en þeir hafa þann vafasama heiður að menga geysilega mikið, en það verður kannski að segja þeim til varnar að þeir hafa ekki mjög mikið af endurnýjanlegum orkugjöfum eins og við Íslendingar höfum.

Á sínum tíma þegar við fengum þessi +10% í Kyoto var það ekki mjög vísindalega reiknað út. Því hefur verið lýst þannig fyrir mér að íslenska samninganefndin hafi bara beðið við lyftudyr og svo opnuðust þær og út kom maður með miða og þar stóð +10% á miðanum. Þannig komust skilaboðin einhvern veginn til skila skilst mér. Sumir töldu að þetta hefði verið frábær niðurstaða að fá að menga rúmlega 10% meira en árið 1990 af því flest ríki voru að taka á sig mínustölur, þ.e. samdrátt miðað við 1990 grunnárið, viðmiðunarárið, á þessu fyrsta skuldbindingartímabili. Það var nú ekki þannig, það að Ísland fékk +10% var ekki neitt neitt vegna þess, og þetta er algjör sérstaða sem Ísland hefur, að fyrir 1990 var búið að, við getum orðað það svo, hreinsa upp á Íslandi. Það var búið að hitaveituvæða landið meira eða minna, við vorum hætt að nota kol og olíur til að hita upp hús, við vorum að nota hlutfallslega mjög lítið jarðefnaeldsneyti, við vorum búin að taka til í því sem hægt var að taka til má segja. Auðvitað erum við með fiskiskipaflota sem nýtir olíu en það er ekki öðrum orkugjöfum til að dreifa, það eru engir aðrir orkugjafar hentugir þar og eins er með bílaflotann okkar, við notum auðvitað bensín á bílana og olíu, það eru ekki aðrir mjög samkeppnishæfir orkugjafar á því sviði.

Þau +10% sem við fengum í Kyoto voru svona rétt til að koma á móti fjölgun í bílaflotanum og því sem var fyrirsjáanlegt að yrði hér á landi. Þess vegna skildu flestir umhverfisráðherrar, og ekki bara flestir heldur að lokum alls heimsins að Ísland yrði að fá einhverja sérmeðhöndlun til að halda réttinum og svigrúminu til að geta nýtt sínar endurnýjanlegu orkuauðlindir, þ.e. jarðvarma og vatnsafl, í m.a. stóriðju. Þess vegna kom íslenska ákvæðið til sem felur í sér, ef ég man rétt, 1,6 milljónir tonna af koltvíoxíð. Það var ákveðið box, íslenskt box, eins og maður hefur stundum viljað útskýra það, og þetta box rúmar þá stóriðju sem síðan hefur verið byggð á síðustu árum.

En núna er spurning, hvað gerist næst? Þá lítum við til Kaupmannahafnarfundarins sem verður núna bráðlega og ég vil sérstaklega koma því á framfæri hér og nýta tækifærið, virðulegur forseti, að mér þykir hálfleitt að þingið skuli ekki sjá sér fært að senda einn þingmann frá hverjum stjórnmálaflokki á þessa ráðstefnu, ég kem því bara að í framhjáhlaupi. Mér skilst að það fari einn frá stjórn og einn frá stjórnarandstöðu og síðan eigi að fara nokkrir embættismenn og auðvitað samninganefndin og einhverjir aðilar frá hagsmunasamtökum, en mér finnst þetta rýrt í roðinu að við getum bara sent tvo þingmenn frá Alþingi. Þetta er stórmál, þetta er mjög mikið mál á Norðurlöndunum, þetta er stórmál fyrir okkur líka og þingið þarf að fjalla um þetta líklega að lokum. Mér finnst ankannalegt að við skulum ekki geta sent einn frá hverjum stjórnmálaflokki á svona mikilvægan fund sem er nú bara haldinn hér við bæjardyrnar, í Kaupmannahöfn.

Því miður hafa staðið nokkrar deilur um íslenska ákvæðið. Hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinn sagði að íslenska ákvæðið yrði nú bara hlegið út af borðinu og mundi aldrei nást. En það náðist fyrir mjög mikið harðfylgi, bæði stjórnmálamanna og embættismanna, og var eiginlega stórsigur að ná því í gegn, að geta útskýrt hlutina þannig að aðrir skildu og viðurkenndu þessa sérstöðu Íslands.

Núna er samninganefnd að huga að því hvernig halda eigi á þessum málum í Kaupmannahöfn. Hæstv. umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir tjáði sig um þessi mál, loftslagsmálin, um daginn í utandagskrárumræðu sem hv. þm. Illugi Gunnarsson átti frumkvæði að. Ég verð að segja, virðulegur forseti, að ég var svolítið hissa á þeirri orðræðu sem þar fór fram. Þar sagði hæstv. umhverfisráðherra að Ísland væri ekki þjóð sem óskaði eftir undanþágum. Hún sagði líka eitthvað á þá leið að hverfa ætti frá undanþáguákvæðinu íslenska. Ég ætla að vitna núna beint í hæstv. umhverfisráðherra, með leyfi forseta:

„Undanþágur eru ekki hluti af rödd framtíðarinnar. Það er því einlægt markmið okkar að losna undan slíku. Ég bið þingmenn stjórnarandstöðunnar að verða okkur samferða inn í nýja tíma og segja skilið við úrelta hugsun og gamaldags nálgun í loftslagsmálum.“

Þetta hefur verið orðræðan hjá þeim sem eru á móti þessu íslenska ákvæði. Gott og vel. Menn geta verið á móti því, reyndar er mótbyrinn á algjörlega fölskum forsendum af því að það vita allir sem hafa kynnt sér þessi mál að það að framleiða ál á Íslandi í stóriðjunni okkar er sex til átta sinnum betra fyrir lofthjúpinn en að framleiða ál með kolum og olíu sem er gert mjög víða. Andstaðan er ekki vegna loftslagsmálanna, þá eru menn rosalega hlynntir þessu, andstaðan er vegna allt annarra hluta, hún er vegna lóna og virkjana. Andstaðan hefur því verið á röngum forsendum að mínu mati. Íslenska ákvæðið er umhverfisvænt í eðli sínu, það sjá allir sem skoða þetta og meira að segja hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon viðurkenndi þetta einu sinni hér í pontu sem mér þótti frekar vænt um. En alla vega segir hæstv. umhverfisráðherra núna að íslenska ákvæðið eigi bara að gufa upp og það sé ómögulegt o.s.frv.

Á sama tíma berast fréttir af því að íslenska samninganefndin sé ekki alveg búin sleppa hendinni af íslenska ákvæðinu heldur sé með það líka á borðinu. Við erum því að fara inn í samningaviðræður þar sem við erum með þetta á borðinu líka, það er ekki búið að henda því alveg burt, alls ekki. Ég held að það sé snjöll taktík hjá samninganefndinni að vilja hafa íslenska ákvæðið í bakhöndinni líka af því að við vitum ekki hvernig Kaupmannahafnarfundurinn fer. Við stefnum inn í kvótakerfi Evrópusambandsins með okkar losun, svokallað ETS-kerfi, og mér skilst að þar eigi kvótinn eða heimildirnar að vera ókeypis í byrjun. Síðan fara menn að greiða fyrir þær og þá munum við Íslendingar standa frekar vel að vígi af því að við erum með það hreina framleiðslu að það ætti þá að verða okkur frekar ódýrt. Svo skilst mér líka, að vísu hef ég kannski ekki alveg nógu góðar upplýsingar um þetta en mér skilst að í þessu nýja ETS-kerfi, kvótakerfi Evrópusambandsins, sem við höfum ákveðið að fara í, verði 5% úthlutunarheimilda til iðnaðarverkefna, þ.e. til nýrra verkefna. Ég held að hægt sé að færa rök fyrir því og það væri kannski gaman að heyra frá hæstv. umhverfisráðherra, sem er komin í salinn, hvort þau 5% sem koma til úthlutunar geti ekki einmitt verið tækifæri fyrir okkur Íslendinga varðandi stóriðju, a.m.k. hef ég skilið það svo.

Á sama tíma og hæstv. umhverfisráðherra talar svolítið harkalega gegn íslenska ákvæðinu er það ekki alveg dottið út af borðinu og umræðan hefur þess vegna verið að verulegu leyti á villigötum. Það væri því mjög æskilegt að samninganefndin kæmi og kynnti fyrir þingnefndum það sem hæstv. umhverfisráðherra kom að í umræðu um loftslagsmál á sínum tíma, utandagskrárumræðu fyrir ekki svo löngu síðan. Ég held að það sé full þörf á því, af því að eins og ég skil þetta, eftir að hafa reynt að afla mér upplýsinga héðan og þaðan, eru málin hvorki eins og ég hef haldið né eins og hæstv. umhverfisráðherra hefur beinlínis haldið fram. Staðan er ekki eins einföld og orðræðan hefur verið, ég skil þetta svo að íslenska ákvæði sé enn á borðinu hjá samninganefndinni sem mér finnst sniðug taktík að hafa það tilbúið ef niðurstaðan í Kaupmannahöfn verður óljós eða engin eða hvernig sem það verkast. Mér finnst að við eigum að taka heiðarlega umræðu hérna og tala ekki niður mál sem eru enn á borðinu. Sú sem hér stendur ætlar að gefa kvótakerfi Evrópusambandsins tækifæri, við erum búin að ákveða að fara inn í það og ég held að það sé alveg hægt að færa rök fyrir því að hugsanlega getum við, ef íslenska ákvæðið fellur frá, samt alveg varið hagsmuni fyrirtækja okkar og sótt fram með iðnaðinn.