138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

9. mál
[18:42]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla til að byrja með að þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, fyrrverandi umhverfisráðherra, og öðrum flutningsmönnum fyrir framlagningu þingsályktunartillögunnar sem snýst í meginatriðum um það, ef ég skil hana rétt, að gæta ýtrustu hagsmuna Íslands í samningaviðræðunum sem nú fara fram. Ég tek undir þau sjónarmið sem koma fram í þessari tillögu og tel að hún eigi að fá málefnalega og greinandi umræðu í umhverfisnefnd og tel engar hömlur þar á.

Það er rétt sem þingmaðurinn nefnir í ræðu sinni að umræðan hefur kannski verið fulleinföld miðað við það hversu flókið málið er. Ég hef reynt að gera grein fyrr því í umræðum áður, bæði í utandagskrárumræðu og í fyrirspurnatíma, að þetta er langt í frá einfalt mál — ég hef reynt að gera grein fyrir því — að því leytinu til að við erum að fara inn í hið svokallaða ETS-kerfi, þ.e. viðskiptakerfi með losunarheimildir. Það er eitthvað sem er ekki val í sjálfu sér frá okkar hendi heldur er í samræmi við skuldbindingar Íslands í EES-samningnum og breytist í ársbyrjun 2013. Þá verða þessi stóriðjufyrirtæki hluti af samevrópsku kerfi og þeim verður úthlutað losunarheimildum úr hinum sameiginlega evrópska potti. Núgildandi íslensk lög um losun gróðurhúsalofttegunda renna út í árslok 2012 og það er eðlilegt að stefna að því að þá verði einhvers konar kerfisbreyting, þannig að þetta evrópska kerfi taki við en fyrirtækin búi ekki við tvöfalt kerfi. Þetta þýðir í raun og veru að íslenska ákvæðið verður óþarft því að fyrirtæki sækja þá sér um heimildir í samevrópskan pott en ekki í heimildir Íslands samkvæmt Kyoto-bókuninni og þar með 14/CP.7, eða íslenska ákvæðið.

Þetta hljómar ekki beint einfalt eins og þetta er sett fram en ég vil fullvissa þingmanninn um það, og hún kom líka aðeins inn á það í ræðu sinni, að íslenska ákvæðinu verður í raun og veru til haga haldið þar til í ljós kemur hvernig losunarheimildum Íslands verður fyrir komið að því er varðar stóriðjuna, það er alveg á hreinu. Ég hef alltaf sagt að það væri í sjálfu sér glannaskapur að taka áhættuna á því að losunarheimildir færu einhvers konar blindgötu á enda þegar við kæmum að þessum skiptum. Hitt er annað að mér finnst svo sem og að mörgu leyti eðlilegt að mönnum hafi kannski brugðið við yfirbragð umræðunnar, þ.e. þegar ég hef orðað það sem svo, til að mynda á umhverfisþingi og víðar, að við séum komin út úr því umhverfi að óska eftir undanþágu. Það er kannski orðfæri sem mönnum hefur þótt fullhástemmt miðað við tilefnið en á sér í raun og veru kannski tvenns konar skýringar, annars vegar eindreginn vilja til að komast út úr því samhengi að þurfa að óska eftir undanþágum og vilja vera í einhvers konar svona heildrænu kerfi og hins vegar sú staðreynd sem samninganefnd Íslands hefur upplýst mig um eftir því sem umræðunni hefur undið fram, að við erum að öllum líkindum að fara út úr því að menn sækist eftir undanþágum yfir höfuð.

Eins og hv. þm. ræddi líka í framsögu sinni kann svo að verða að árangurinn af Kaupmannahafnarráðstefnunni verði ekki eins mikill og að var stefnt á tímabili og við gætum verið að lenda í því að þar verði ekki í raun og veru um að ræða nýjan samning sambærilegan við Kyoto, heldur einhvers konar þó lagalega bindandi samkomulag sem síðan leiðir til áframhaldandi vinnu og það er auðvitað það sem við mundum öll helst vilja sjá. En vegna heildarumræðunnar yfir höfuð og þeirrar staðreyndar að þetta er að verða umræða sem tekur sífellt meira rými í alþjóðlegri pólitískri umræðu, sérstaklega núna í aðdraganda Kaupmannahafnarfundarins og maður finnur það þá fyrst og fremst kannski á Norðurlöndunum að það eru miklar væntingar og svona væntingar til þess að Bandaríkin geti komið að borðinu, dvínandi væntingar þó og spurningin: hvað gerir Kína? o.s.frv., þetta eru nánast má segja fréttir á hverjum degi. Ég vil geta þess hér, eftir að hafa fengið um það afar gagnlega ábendingu frá hv. málshefjanda, Siv Friðleifsdóttur, að ég hef komið því í kring að sérfræðingar umhverfisráðuneytisins munu koma á fund eða bjóða fram að koma á fund allra þingflokka til að fara ítarlega yfir þessi mál. Ég þakka sérstaklega fyrir þá gagnlegu ábendingu því að þetta er það snúið mál að maður þarf að hafa ráðrúm til að fara í gegnum það og ekki bara í viðkomandi þingnefnd, það dugar í raun og veru ekki að fara í gegnum það í umhverfisnefnd eða í umræðu eins og við erum í hér, því að þetta er að mörgu leyti umræða sem hefur verið fulltæknileg, kannski bara á færi fárra þingmanna og hefur fyrir vikið kannski orðið of yfirborðsleg.

Það er einlægur ásetningur minn að opna umræðuna eins vel og hægt er og þá með sérfræðingum úr umhverfisráðuneytinu sem báðir eru fulltrúar í samninganefndinni og geta þá upplýst um framgang umræðunnar eins og nokkurs er kostur og þessara samningaviðræðna og væntanlega líka um þá sýn sem við stöndum frammi fyrir ef ekki verður fæst niðurstaða eins og margt bendir nú til. Ég vil bara fullvissa þingmenn um að meginatriðum þingsályktunartillögunnar er vel til haga haldið, þ.e. gæta ýtrustu hagsmuna Íslands í samningaviðræðunum og stendur ekkert annað til og ég lýsi miklum vilja mínum til að gera það sem ég get lagt af mörkum til að hafa umræðuna eins upplýsta og nokkurs er kostur.