138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

9. mál
[19:06]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Ég tel mikilvægt að við áttum okkur á því að hagsmunir Íslands eru númer eitt, tvö og þrjú það sem samninganefndin er nestuð með. Það þjónar engum hagsmunum, og allra síst hagsmunum Íslands, að við förum að hnútukastast um tæknileg útfærslumál í þingsal. Við komum til með að sitja við sama borð og önnur ríki innan EES frá og með 2013 og þá gilda sömu skilyrði um íslensk fyrirtæki eins og fyrirtæki annars staðar á svæðinu. Uppleggið sem samninganefndin byggir sína nálgun á er upplegg sem varð til í tíð fyrri ríkisstjórna og er ekki eitthvað sem núverandi ríkisstjórn hefur fundið upp. Þetta snýst allt saman um það — það er misskilningur að halda að íslenska ákvæðið geti farið hönd í hönd með því að fara inn í viðskiptakerfið, það þarf að finna út úr því hvernig sú breyting kemur til með að eiga sér stað. Varðandi Samtök atvinnulífsins þá hafa þau verið með fulltrúa með samninganefndinni á öllum fundum og ég óskaði sérstaklega eftir, vegna þessarar yfirlýsingar frá 2. júní, fundi með fulltrúa SA í samninganefndinni og þeirrar forustu. Ég verð að segja að okkur auðnaðist að stilla saman strengi sem meira verður sagt um samskipti umhverfisráðherra við SA núna alveg á síðustu dögum.