138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

9. mál
[19:10]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla til að byrja með að láta þingmanninn vita af því að ég hef nú þegar átt tvo ágæta fundi í Reykjanesbæ, í fyrsta lagi opinn pólitískan fund þar sem ekki var mikið um sjálfstæðismenn og átti síðan ánægjulegt síðdegi þar sem ég kynnti mér atvinnulífið í Reykjanesbæ í dag. Þannig að það stendur ekki á þeirri sem hér stendur að hitta fólk, enda væri það mikill ósiður af stjórnmálamanni að taka upp slíkar aðferðir.

Ég vil líka fullvissa þingmanninn um það að við gætum hagsmuna Íslands í hvívetna. Það felst í því að tryggja að hagsmunum íslenskra fyrirtækja sé borgið, en það felst líka í því að tryggja það að Ísland skipi sér í fremstu röð í hópi þeirra metnaðarfyllstu þjóða í heiminum sem axla ábyrgð þeirra ríkja sem bera ábyrgð á loftslagsvandanum og ætla sér að taka þátt í því. Af þeim sökum viljum við stilla okkur upp með Evrópusambandsríkjunum og þeim ríkjum sem eru tilbúnust til að horfast í augu við þessa miklu ógn sem steðjar að mannkyninu. Það er auðvitað mikilvægasta nestið. Þetta er mikill línudans. Þetta fer vonandi allt saman en ég vil líka fullvissa þingmanninn um það að ég vænti þess að mínir góðu sérfræðingar muni vera tilbúnir að ræða málið út í hörgul með þingflokki sjálfstæðismanna eins og öðrum þingflokkum og koma þeim skilaboðum sem þar kunna að koma upp inn á borð til mín eftir atvikum.